140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

heimild til að fjármagna gerð jarðganga undir Vaðlaheiði.

718. mál
[17:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir margt sem kom fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni. Það væri fróðlegt að sjá þróunina núna. Hv. þingmaður nefndi stokk undir Miklubraut. Við getum líka nefnt göng undir Öskjuhlíð og margar styttingar, sérstaklega í jarðgöngum á höfuðborgarsvæðinu sem án nokkurs vafa yrðu gríðarlega mikil samgöngubót. Það er spurning hvort nú sé komið fordæmi og menn muni hafa forgöngu um að fara svipaða leið og hér er farin. Nóg um það. Ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann um það.

Í hv. samgöngunefnd hefur það komið fram og hv. þm. Þór Saari las það einnig upp úr nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að þetta mundi spara snjómokstur. Í skýrslu Pálma Kristinssonar þar sem hann fór yfir málið var niðurstaða hans sú að þetta gengi ekki upp að óbreyttu eins og niðurstaðan er hjá flestum sem hafa fjallað um það. Hann gagnrýndi ekki aðeins forsendurnar heldur kom hann líka með hugmyndir um hvernig væri hægt að gera þetta og nefndi dæmi frá öðrum löndum. Hér er látið ráða annað prinsipp en til dæmis við Hvalfjarðargöng þar sem er annar valkostur og hægt að fara aðra leið. Hann nefndi meðal annars einhvers konar lokun á Víkurskarði, hugsanlega með því að moka ekki snjó, jafnvel að hætta viðhaldi eða loka veginum með einhverjum hætti. Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hélt að þegar hv. fjárlaganefnd fengi þetta mál og það kæmi aftur til hv. samgöngunefndar, eða að þær ynnu saman, væru menn að forma einhverjar slíkar leiðir.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er meiningin að hætta snjómokstri í tengslum við þetta? Hefur verið tekin ákvörðun um það, eins og kemur fram í nefndaráliti sem hv. þm. Þór Saari las upp?