140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

framhald þingstarfa.

[10:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það rann upp fyrir mér áðan þegar ég hlýddi á þingmenn stjórnarflokkanna að líklega þarf að breyta hér aðeins um hefðir. Ég held að boða þurfi að til fundar í þingflokkunum og í stað þess að þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna fari í sína flokka held ég að þeir ættu ásamt formönnum sínum að fara í stjórnarflokkana og skýra frá því sem rætt hefur verið á þessum samningafundi, upplýsa stjórnarþingmenn um það sem sett hefur verið á borð og borið fram. Ég hef það á tilfinningunni, frú forseti, að stjórnarþingmönnum sé ekki kunnugt um hvað búið er að leggja fram í þessu máli, hvað það er sem menn vilja semja um. Það er tilfinning mín miðað við hvernig ástandið er hér og hvað verið er að ræða á göngunum og í þessum ræðustól.

Ég held að það sé tilraun sem gera þurfi og ég hygg að það muni varpa ljósi á það sem reynt hefur verið að semja um í herberginu hér niðri.