140. löggjafarþing — 123. fundur,  16. júní 2012.

menningarminjar.

316. mál
[10:54]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Við höfum örlítinn tíma til að átta okkur á því út á hvað þessi breytingartillaga gengur og ég vona að menn noti þann tíma til að skoða hana. Það er líka hægt að gera breytingartillögu við breytingartillögu eða ræða við flutningsmann breytingartillögunnar um slíka hluti ef í það fer. Atkvæðagreiðsla verður væntanlega ekki fyrr en eftir helgi.

Já, vissulega er það rétt að hægt kann að vera að stíga eitt skref í einu. Það sem við erum að gera núna í löggjöfinni er hins vegar að stíga skref til baka. Því miður er það þannig að það gerir þeim sem raunverulega hafa góðan hug í þessum efnum, vilja framfarir og vilja klára málin á eðlilegan hátt landi og lýð til heilla, svo ég tali nú ungmennafélagslega, þetta skiptir þá ekki miklu máli. Þeir koma þessu í verk hvort eð er. Málið varðar auðvitað þá sem höllustum fæti standa og skussana sem er alveg sama og eiga eftir að nota þessa mildun, þetta skref til baka til að sinna þessu máli ekki. Við eigum ekki að ganga þannig frá hnútum í þessu efni.