140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[15:32]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú þegar búið er að ræða húsnæðismál í bráðum heila viku á þinginu fer ekki hjá því eftir að hafa hlustað á tugi af ræðum, ekki síst frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í: Þú þarft ekki að hlusta.) — ég hef lagt mig fram um það að hlusta og fylgjast með — að það fer ekki fram hjá manni að í þeirri umræðu endurspeglast nákvæmlega það sem maður hefur upplifað hér í tveimur síðustu þingræðum, þ.e. frá hv. þm. Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur og hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, báðar þingkonur Sjálfstæðisflokksins, að sjónarmiðin eru gerólík. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir talar fyrir því að nauðsynlegt sé að fara í ríkulega uppstokkun á húsnæðiskerfinu, lánastefnu og hlutverki Íbúðalánasjóðs en ég gat ekki heyrt betur en að hv. þm. Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir hafi talað á annan veg, þ.e. að nauðsynlegt væri að Íbúðalánasjóður í þeirri mynd sem við þekkjum hann í dag væri starfandi, ekki síst til þess að sinna þeim svæðum landsins þar sem bankakerfið hefur ekki verið að bjóða upp á lánaþjónustu vegna húsnæðiskaupa.

Ég vil því spyrja þingmanninn hvort hún telji ekki með vísan til þess sem hún sagði að sú leið sé rétt sem farið er fram með í fyrirliggjandi frumvarpi, að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA á eins hógværan máta og kostur er meðan menn sjá hvernig mál þróast hér á næstu missirum og árum.