140. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2012.

fjögurra ára samgönguáætlun 2011--2014.

392. mál
[12:10]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Nú er ljóst að fjögurra ára samgönguáætlun verður samþykkt með þeim breytingartillögum sem umhverfis- og samgöngunefnd gerir við hana. Það er mikið fagnaðarefni vegna þess að nú er verið að ráðstafa viðbótarfé sem okkur mun að öllum líkindum áskotnast, m.a. vegna þess umdeilda veiðigjalds sem hér hefur mikið verið til umræðu. Hér erum við meðal annars að gera þær brýnu jarðgangaframkvæmdir, Norðfjarðargöng og Dýrafjarðargöng, að veruleika á allra næstu árum. Ráðist verði í Norðfjarðargöng strax og Dýrafjarðargöng, sem voru fallin út af samgönguáætlun fyrir tveimur árum, eru komin þangað inn aftur. Þau verða þarnæsta framkvæmd sem á samkvæmt þessari áætlun, og Alþingi er nú að samþykkja, að hefjast 2015 og þeim skal verða lokið árið 2018. Það eru mikil tíðindi í samgöngumálum landsins alls verði það að veruleika (Forseti hringir.) og ég óska okkur til hamingju með þessa afgreiðslu.