140. löggjafarþing — 127. fundur,  19. júní 2012.

stjórn fiskveiða.

856. mál
[21:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hérna leiðir í raun og veru af tvennu. Annars vegar er, eins og hv. þm. Kristján L. Möller hefur gert grein fyrir, um að ræða tæknilegar breytingar sem má segja að séu nauðsynlegar til að hægt sé að ljúka afgreiðslu á veiðigjaldafrumvarpinu sem hér hefur áður verið rætt. Ýmislegt í þessu frumvarpi hefur þær afleiðingar að gera þarf tilteknar breytingar á núgildandi lögum um stjórn fiskveiða eftir að það lá fyrir að það nýja frumvarp sem lagt var fyrir þingið í mars verður ekki afgreitt. Það kallar á tilteknar tæknilegar breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða til að skapa á vissan hátt forsendu fyrir því að hægt sé að afgreiða frumvarpið um veiðigjöldin sem í raun er sjávarútvegsskattur eins og ég hef margoft sagt.

Í öðru lagi endurspeglar þetta þá pólitísku niðurstöðu sem hefur orðið í samningaviðræðum forustumanna þingflokkanna á undanförnum dögum þar sem forustumenn ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gáfu út tiltekna yfirlýsingu um að ekki yrðu gerðar breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni. Það þýðir að framlengja þarf gildistökuákvæði sem er að finna í því frumvarpi og hefði fallið úr gildi við lok núgildandi fiskveiðiárs eða á næsta fiskveiðiári um eitt ár eða svo til að fullnusta þá hugsun að í raun og veru værum við að frysta núverandi ástand, breyta engu í grundvelli fiskveiðistjórnarlaganna sjálfra. Þetta er kjarni málsins.

Það er einn skavanki í þessu og að mínu mati stílbrjótur, það að meiri hluti hv. atvinnuveganefndar kaus að gera breytingar á því sem hefði orðið reglan um það hvernig staðið er að því sem kallað hefur verið fjármögnun í millifærslupottana, byggðakvóta, línuívilnun, strandveiðar, rækju- og skelbætur. Eins og menn vita voru lengst af eingöngu skertar aflaheimildir í fjórum tegundum, þorski, ýsu, ufsa og steinbít. Eins og hv. þm. Kristján L. Möller gerði grein fyrir var síðan samþykkt breyting í fyrra sem meðal annars byggðist á frumvarpi sem sá sem hér stendur hafði flutt þar sem gert hafði verið ráð fyrir að allir tækju jafnan þátt í því að leggja til aflaheimildir inn í þessa millifærslupotta. Pólitíska niðurstaðan í fyrra var sú að taka skrefið ekki til fulls heldur taka eingöngu eitt lítið skref og gera ráð fyrir því að aðrar tegundir en þær fjórar sem ég nefndi áðan legðu inn í þessa potta sem svaraði 1/4 af því sem ella væri gert ef um væri að ræða fulla jöfnun. Frumvarpið var þannig úr garði gert, og lögin, að það var hins vegar gert ráð fyrir því að við næstu fiskveiðiáramót mundi þessi jöfnun að fullu koma til framkvæmda.

Með breytingartillögunni er hins vegar lagt til að það verði ekki gert að fullu, heldur eingöngu þannig að þessar tegundir utan þessara fjögurra leggi til að 4/5 frá heimildum sínum inn í þessa potta en að öðru leyti komi jöfnunin í gegnum þessar fjórar tegundir, þorsk, ufsa, ýsu og steinbít. Þarna er ekki eins langt gengið og ég hefði kosið í þeim efnum því að ég tel eðlilegast að það sé jöfnuður þarna á milli. Þó er það þannig eins og fram kom í máli hv. framsögumanns málsins að um er að ræða bráðabirgðaákvæði til eins árs og þegar það fellur úr gildi tekur að fullu við þessi jöfnun sem ég tel eðlilega og réttmæta þó að ég viti að ekki deili allir með mér þeirri skoðun.

Ég vil aðeins vekja athygli á þeim breytingum sem verða þegar sú ákvörðun er tekin núna að fara þessa leið, að tegundirnar utan þessara fjögurra taki þátt í jöfnuninni að 4/5, þ.e. 80%. Þá hefur það í för með sér talsverða breytingu frá því sem er á yfirstandandi fiskveiðiári. Ég ætla að lesa aðeins tölur til að varpa ljósi á þetta.

Skerðing í þorskkvótanum hjá þeim sem eru með hann nemur á þessu ári vegna millifærslupottanna 10,83%. Með breytingartillögunni sem hv. þingmaður mælti fyrir fer þetta hlutfall niður í 6,81%. Í ýsunni var hlutfallið 8,23% á yfirstandandi fiskveiðiári, verður 6,12%. Í ufsanum var það 8,53% á þessu fiskveiðiári, verður á því næsta 6,2% og í steinbítnum var þetta 11,13% en verður 6,89%.

Í öðrum tegundum nemur skerðingin 4,28%, er lægra en um var rætt með þessari skerðingu upp á 5,3%, einfaldlega vegna þess að það er gengið frá því í samkomulagi eða yfirlýsingu forustumanna ríkisstjórnarinnar að í þessa millifærslupotta á næsta fiskveiðiári fari ekki meira aflamagn í þorskígildum talið en ráðstafað er til þessara hluta á yfirstandandi fiskveiðiári sem er í kringum 21 þús. þorskígildistonn. Með því að gera það og í ljósi þess að við munum væntanlega á næsta fiskveiðiári fá meiri aflaheimildir, m.a. á grundvelli veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunarinnar, er ljóst að ekki verður þörf á að nýta til fulls þessi 5,3% sem annars hafði verið gert ráð fyrir að yrði hámarkið af því sem menn gætu skert aðrar fisktegundir. Skerðingin verður þá einungis 4,28% og lækkun frá yfirstandandi ári á hinum fjórum tegundunum í samræmi við það sem ég hef þegar gert grein fyrir.

Ég neita því ekki að ég hefði viljað taka skrefið til fulls á þessu fiskveiðiári en ég tel hins vegar ekki ástæðu til að dvelja lengur við það. Þetta er niðurstaða meiri hluta nefndarinnar og verður þá væntanlega að lögum síðar í kvöld. Ég legg áherslu á að hið endanlega skref með fullri jöfnun verði þá stigið við fiskveiðiáramótin 2013/2014 nema meiri hluti Alþingis taki fyrir þann tíma ákvörðun um að breyta því sem ég vona svo sannarlega að verði ekki.