141. löggjafarþing — 2. fundur,  12. sept. 2012.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:13]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Það er einkum tvennt sem hefur einkennt umræðu og umfjöllun um þjóðfélagsmál á því sólríka sumri sem nú er að kveðja, annars vegar jákvæðar og ánægjulegar fréttir af endurreisn þjóðfélagsins, atvinnulífs og heimilanna. Hins vegar eru neikvæðar og fúllyndar fréttir af viðbrögðum einstakra fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Þeir virðast hvorki hafa náð að sjá til sólar í sumar né þess augljósa viðsnúnings sem hefur orðið í efnahagskerfinu á umliðnum missirum.

Virðulegi forseti. Sjónarspil það sem landsmenn voru áhorfendur að í þingsalnum í fyrravetur og fram á sumar var engum til sóma. Hér verður að gera bragarbót á, nú þegar á þessu þingi. Það er mikill misskilningur ef menn gefa sér fyrir fram að þinghald á kosningavetri verði ætíð í hálfgerðri upplausn. Slíkt er ábyrgðarlaust tal. Við höfum mikilvægum verkum að sinna og berum ríkar skyldur og ábyrgð gagnvart þjóðinni. Það á við hvort heldur við erum að takast á við endurreisnina eftir hrunið, framtíðarskipan stjórnsýslu eða að styðja við bakið á þeim sem höllustum fæti standa eða eiga í harðri baráttu við náttúruöflin, líkt og íbúar í Þingeyjarsýslum þessa dagana. Þar eru skyldur okkar og sameiginleg verkefni.

Ágætu landsmenn. Nú liggur fyrir með skýrum hætti að þjóðarbúið er að ná góðu jafnvægi á ný. Allar hagtölur vísa í sömu átt og við stöndum flestum öðrum þjóðum framar í skjótri og markvissri endurreisn. Við höfum sýnt dug og þolgæði, erum á réttri leið og getum horft til bjartrar framtíðar og nýsköpunar eftir frjálshyggjuhrunið mikla. Nýbirt fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár hlýtur að vera öllum mikið fagnaðarefni því að það staðfestir skýrt þann árangur sem náðst hefur með markvissri stefnu núverandi ríkisstjórnar. Það er búið að snúa við blaðinu.

Við getum sótt fram með að efla og styrkja velferðarkerfið á nýjan leik. Þar ber hæst stóraukin framlög til barnafjölskyldna með endurreisn fæðingarorlofs og verulegri hækkun barnabóta. Fyrstu áfangar í nýju húsnæðisbótakerfi verða einnig að veruleika á nýju ári. Hér er um stórfellt hagsmunamál að ræða, ekki síst fyrir okkar unga fólk sem er með þungan húsnæðiskostnað eða er á leið út á húsnæðismarkaðinn. Nýtt húsnæðisbótakerfi mun jafna og styrkja stöðu þeirra sem hafa borið þyngsta kostnaðinn á húsnæðismarkaðnum, ekki síst almennra leigjenda.

Samhliða þessum umbótum verður blásið til enn frekari sóknar í atvinnulífinu með stórhækkun framlaga til samgöngumála, nýsköpunar og tækniþróunar með áherslu á að virkja mannauð og hugvit þjóðarinnar. Mikilvægast af öllu er að við horfum nú til nýs samfélags, aukins jöfnuðar og velferðar þar sem tryggð verður sameign og sameiginleg ábyrgð þjóðarinnar á auðlindum okkar.

Þessi umbreyting íslensks samfélags er ekki öllum að skapi. Fulltrúar einstakra sérhagsmuna og einkahyggju mega ekki til þess hugsa að mikilvægar breytingar sem þjóðin hefur kallað eftir á umliðnum áratugum nái fram að ganga. Þess vegna er tekist á um auðlindastjórnun til lands og sjávar. Þess vegna er tekist á um aukinn jöfnuð og réttlæti og þess vegna er tekist á um sjálfa stjórnskipan landsins, nýja og breytta stjórnarskrá. Þetta er umræða um framtíðarskipan samfélagsins og í þeirri umræðu verða allir að láta skoðun sína í ljós. Það gerum við meðal annars eftir nokkrar vikur þegar þjóðin mun segja álit sitt á ýmsum lykilákvæðum nýrrar stjórnarskrár. Sú umsögn mun hafa rík áhrif á umfjöllun og afgreiðslu Alþingis. Slíkt samráð er skýrt dæmi um breytta stjórnarhætti og nýtt lýðræði. Því er mikilvægt að við stígum öll saman þau mikilvægu skref til nýrrar framtíðar.

Ágætu landsmenn. Víglínurnar í aðdraganda nýrra þingkosninga eru skýrar: Sjálfstæðisflokkurinn og hægri armur Framsóknarflokksins vilja taka höndum saman og sigla á sín fyrri mið. Þjóðin þekkir það af biturri reynslu síðustu ára með hvaða stórstrandi sú sigling endaði. Nú stígur stuttbuxnadeild Sjálfstæðisflokksins fram á vígvöllinn í herferð undir slagorðinu Sókn gegn sósíalisma og ræðst sérstaklega gegn forsætisráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur, og forseta Bandaríkjanna, Barack Obama. Bæði tvö eru verðugir fulltrúar jafnaðar og velferðar og hafa lagt áherslu á sókn gegn spillingu og sérhagsmunum og ógna þar með framtíðardraumum unga íhaldsins. Þegar árangurinn af markvissri vinnu síðustu ára er að skila sér í hús stígur hin íslenska „tepokahreyfing“ Sjálfstæðisflokksins fram í dagsljósið. Þeir sem hafa haldið sig í felum á bak við „svokallað hrun“ telja sig nú eiga að taka yfir stjórn landsmálanna. Það má aldrei verða. Gleymum því ekki sem á undan er gengið. Sagan er til að draga lærdóm af og það höfum við sannarlega gert á síðustu árum.

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Endurreisninni og uppgjörinu er ekki lokið, langt í frá, en við erum komin á beinu brautina og sjáum til lands. Um það efast enginn. Okkar bíða mörg og stór verkefni í frekari uppbyggingu atvinnulífsins, samgöngubótum, eflingu velferðar, jafnaðar og lýðræðis. Allar forsendur eru til nýrrar framfarasóknar og við höfum náð undraverðum árangri á nánast örskömmum tíma og það sýnir sig hvað býr í sterkri þjóð. Það er því full ástæða fyrir okkur að vera bæði jákvæð og bjartsýn á komandi framtíð. Batamerkin eru allt um kring, við erum að uppskera eftir erfið ár. Sú uppskera á og skal vera þjóðarinnar allrar. Um það snúast stjórnmál dagsins í dag.