141. löggjafarþing — 3. fundur,  13. sept. 2012.

Fjárlög 2013.

1. mál
[11:44]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fór yfir þær áherslur sem einkennt hafa málflutning fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að menn séu ekki sáttir við tekjuöflunina sem fjárlagafrumvarpið byggir á. Þeir hafa hins vegar ekki verið tilbúnir að taka umræðuna alla leið um hvernig fara eigi í endurstokkun og yfirferð á tekjuöflun ríkissjóðs þegar fyrir liggur að allir helstu tekjustofnar stjórnvalda hrundu í efnahagshruninu. Menn hafa auðvitað þurft að horfa til nýrra leiða til að tryggja að ríkissjóður geti staðið undir rekstri sínum, skuldbindingum sínum, að ég tali ekki um þann kostnað sem fylgir því vaxtafjalli og þeirri skuldsetningu sem lagðist á ríkissjóð eftir hrun, sem þingmaðurinn fór ítarlega yfir.

Það skaut hins vegar nokkuð skökku við að hv. þingmaður minntist í engu á það sem þó hefur svifið yfir vötnum í umræðunni. Það kom fram með skýrum hætti hjá formanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarna Benediktssyni, bæði í ræðu riti, síðast við stefnuræðu forsætisráðherra í gær, þ.e. nákvæmlega það að til að tryggja að tekið verði á vaxtavandanum vegna þess að ekki megi auka við tekjurnar — Sjálfstæðisflokkurinn talar ítrekað um að lækka verði skattálögur — sé engin önnur leið en fara í niðurskurð, massífan niðurskurð.

Ég spyr: Hvers vegna fáum við ekki upp á borðið þær áherslur sem Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að leggja í þeim efnum? Það verður auðvitað að setja öll spilin á borðið. Það þýðir ekki að tala um að ekki megi sækja tekjur, að það þurfi að borga vexti og skuldir og síðan eigi að skera niður, en það er ekkert farið nánar í það. Ég vænti þess að við fáum frekari skýringar frá hv. þingmanni um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að fara í þann niðurskurð.