141. löggjafarþing — 6. fundur,  19. sept. 2012.

íþróttalög.

111. mál
[17:59]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á íþróttalögum, frumvarp sem ekki er mikið að vöxtum en fjallar um mikilvægt svið, ákveðna skuggahlið íþróttastarfseminnar, sem er gríðarlega mikilvæg í uppeldislegu tilliti og hefur ýmsar aðrar hliðar í okkar menningu sem við viljum standa vörð um.

Ég vildi koma upp og leggja áherslu á það að hv. allsherjar- og menntamálanefnd mundi skoða það sérstaklega hvort hægt væri að beita sér fyrir auknum rannsóknum á þessu sviði hér á landi. Við fáum reglulega, sem betur fer ekki mjög oft, dæmi um það, einkum erlendis frá en svo sem einnig hér heima, að verið sé að misnota ólögleg lyf í þeim tilgangi að auka árangur þátttakenda í íþróttum. Það er mjög mikilvægt, bæði fyrir íþróttahreyfinguna í landinu og okkur sem erum hér fulltrúar stjórnvalda í landinu, og erum að reyna að hafa yfirsýn yfir þann málaflokk sem íþróttirnar eru, að við höfum glöggar upplýsingar og bestu rannsóknir um það nákvæmlega hversu víðtækt vandamálið er þannig að við getum gripið til aðgerða sem raunverulega hafa einhverja þýðingu.

Þar er mjög mikilvægt, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir kom inn á, að við séum bæði með hina formlegu íþróttahreyfingu, undir Íþróttasambandi Íslands, í huga en einnig þessar greinar sem eru að koma upp núna og eru kannski að banka á dyrnar í einhverjum skilningi eins og cross fit er ágætisdæmi um. Þar erum við með afreksmenn sem hafa náð ótrúlegum árangri á alþjóðavettvangi og mikilvægt að við skoðum þessar greinar sem standa fyrir utan Íþróttasamband Íslands. En allt verður þetta að gerast í mjög góðu samstarfi við íþróttahreyfinguna og okkar fræðimenn.

Ég ætla ekki að hafa frekari orð um frumvarpið. Ég er viss um að allsherjar- og menntamálanefnd mun taka málið til vandlegrar skoðunar og vonandi verður það að lögum fljótlega á þessu þingi.