141. löggjafarþing — 7. fundur,  20. sept. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:53]
Horfa

Flm. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðu um þetta mál. Hér hafa komið fram ýmis sjónarmið sem gaman er að reifa stuttlega. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir kom fyrst í pontu, fjallaði um málið frá ýmsum hliðum og viðraði þá skoðun sína að ekki hefði verið staðið rétt að ferlinu á sínum tíma, sagði að það hefði verið rangt að hverfa frá dreifðu eignarhaldi sem til dæmis þáverandi forsætisráðherra hafði lagt áherslu á í upphafi þessa ferils. Ég er því hjartanlega sammála og tel að það hafi verið afdrifarík mistök og þau leitt til þess að fámennum hópum voru í reynd falin fullkomin yfirráð yfir þessum bönkum. Ég tel að það hafi skipt talsverðu máli um þetta tímabil sem og það að ekki voru hafðir í heiðri heilbrigðir og eðlilegir viðskiptahættir í stjórnum þessara banka. Þarna voru ekki á ferð einstaklingar sem höfðu getið sér gott orð fyrir rekstur bankastofnana, þvert á móti, og það hafði heilmiklar afleiðingar og þýðingu í þeirri atburðarás sem leiddi til hruns bankanna.

Ég notaði það orðalag í ræðu minni að þetta hefði verið upphafið á þeirri atburðarás sem leiddi til hruns bankanna. Auðvitað eru áhrifaþættirnir og orsakirnar langtum fleiri, en það hvernig staðið var að einkavæðingunni hafði að mínu mati skýr áhrif á það hversu illa fór með það sorgarferli sem leiddi til hruns kerfisins 2008.

Ég nefndi það einnig að því miður hefðu ekki verið einsdæmi þau vinnubrögð sem Alþingi gerði sig sekt um á þessum tíma. Þetta frumvarp var eins einfalt og nokkur kostur var, rúmaðist í einni setningu eins og ég fór yfir í ræðu minni, og rann algjörlega gagnrýnislaust í gegnum stjórnarmeirihlutann á þinginu á þeim tíma. Það er sannarlega ekki til eftirbreytni og ég held að þrátt fyrir að þingið liggi nú lágt á virðingarskalanum hjá þjóðinni hafi menn þó náð að laga vinnubrögðin talsvert á þessu kjörtímabili, að bæði stjórn og stjórnarandstaða séu vel á vaktinni gagnvart frumvörpum sem koma inn í þingið og að þau séu í fleiri tilvikum en færri undirorpin talsverðum breytingum.

Hér hefur talsvert verið rætt um það hvort ekki væri rétt að hnýta við rannsóknina rannsókn á því sem hv. þingmenn Tryggvi Þór Herbertsson og Birkir Jón Jónsson hafa kallað síðari einkavæðingu bankanna. Það er mjög umdeilanlegt hvort þetta séu sambærilegir hlutir. Menn hafa bent á það að í fyrra tilvikinu sé um að ræða sölu á ríkiseignum en í síðara tilvikinu sé bönkum sem falla í skaut ríkisins komið í hendur raunverulegra eigenda þeirra sem eru kröfuhafar þessara banka.

Hitt er annað mál, og það vil ég að komi skýrt fram, að ég tel fullkomlega eðlilegt að þingið geri kröfu til þess að þessi ferill sem endar með endurreisn bankanna eftir hrun sé rannsakaður. Þá getum við lagt mat á það hvort þarna hafi að einhverju leyti verið ástunduð sömu vinnubrögð, hvort flokkspólitískir hagsmunir hafi ráðið för í því efni eins og við einkavæðingu bankanna. Ég lýsi því yfir fyrir minn hatt að ég mundi styðja það að slík tillaga kæmi fram og greiða henni atkvæði mitt.

Að endingu fagna ég því að hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson telur öll tilefni til að klára þetta mál hratt og vel í þinginu og afgreiða það í næstu viku. Ég er því algjörlega sammála, ég tel að hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi unnið málið vel í vor og klárað það af sinni hálfu með þeim hætti að ekkert sé eftir í málinu enda hefur ekkert breyst efnislega, eingöngu dagsetning skila rannsóknarnefndarinnar hefur breyst af augljósum ástæðum. Ég tek því undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þingmanni um að þetta sé tillaga sem á að vera hægt að afgreiða á einum fundi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í næstu viku og koma til endanlegrar afgreiðslu hér í þinginu.