141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

samgöngumiðstöð í Vatnsmýri.

104. mál
[16:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í kynningu forseta hef ég lagt fram fyrirspurn á þskj. 104 sem er einfaldlega þannig:

Hver er staða undirbúnings að byggingu og rekstri samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri í Reykjavík?

Virðulegi forseti. Saga samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni er mjög löng. Ég hygg að hún byrji alla vega 2005 með samkomulagi þáverandi borgarstjóra og þáverandi samgönguráðherra. Ef ég man rétt er saga þessarar samgöngumiðstöðvar einir sjö borgarstjórar og að minnsta kosti þrír ráðherrar. Í tíð minni sem samgönguráðherra gerði ég samkomulag 2008 við þáverandi borgarstjóra, Ólaf F. Magnússon. Þá var talað um að framkvæmdir hæfust það haustið. Það gekk ekki eftir. Sá meiri hluti sprakk. Þann 8. apríl 2009 var gert samkomulag við þáverandi borgarstjóra, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og átti það að vera mikilvægt innlegg opinberra aðila, m.a. til að skapa atvinnu, hluti af stöðugleikasáttmála. Þar var áfram talað um austurvalkostinn, þ.e. norðan við Loftleiðahótelið. Fyrsti áfangi átti að hefjast 2009 en við vitum hvernig farið hefur.

Í nóvember 2010 og árið þar á eftir, rétt eftir ráðherraskipti, kom fram í fréttum að hætt væri við byggingu samgöngumiðstöðvar sem undirbúin hafði verið í ein sex eða sjö ár. Þar er talað um drög að samningi milli ráðuneytis og borgarinnar, þ.e. á milli núverandi innanríkisráðherra og þeirra sem nú stjórna borginni.

Ég spyr einfaldlega: Hvar eru þau drög? Hvað stóð í þeim drögum? Hver eru áformin?

Virðulegi forseti. Eins og ég hef rakið hér er þetta ein sorgarsaga. Hæstv. ráðherra, sem er einlægur stuðningsmaður Reykjavíkurflugvallar og vill að miðstöð innanlandsflugs verði þar áfram, eins og ég vil líka og fjölmargir aðrir, hefur orðað það þannig að núverandi flugstöð, sem er ekkert annað en skúrar, hafi verið að drabbast niður undanfarin ár eins og hæstv. ráðherra orðaði það svo vel. Ég er alveg sammála honum í því.

Hæstv. ráðherra sagði um leið og hætt var við þessa samgöngumiðstöð norðan við Loftleiðahótelið að fara ætti af fullum krafti í að byggja ódýrari samgöngumiðstöð sem ríki og borg hafi verið sammála um á svokölluðu vestursvæði, á núverandi svæði Flugfélags Íslands. Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, ég get stutt þá hugmynd mjög vel.

Ég spyr því þeirra spurninga sem ég hef sett fram og lesið upp um það hver sé staða undirbúnings að byggingu og rekstri samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri í Reykjavík eftir það samkomulag sem núverandi hæstv. ráðherra og borgarstjóri og núverandi borgaryfirvöld gerðu. Hvenær má reikna með að byrjað verði á framkvæmdum?