141. löggjafarþing — 8. fundur,  24. sept. 2012.

samgöngumiðstöð í Vatnsmýri.

104. mál
[16:49]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Samgöngumiðstöð í Vatnsmýri er óþörf vegna þess að flugvöllurinn mun fara úr Vatnsmýrinni eins og gildandi aðalskipulag Reykjavíkur gerir ráð fyrir. Ég held að þingmenn allra kjördæma ættu að sammælast um það og reyna að ná samkomulagi um flutning flugvallarins úr því umhverfi sem hann er í núna vegna þess að það eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir fyrir alla íbúa höfuðborgarsvæðisins að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. (Gripið fram í.) Staðsetning hans þar stendur algjörlega í vegi fyrir allri framþróun í skipulagningu byggðar á höfuðborgarsvæðinu um ókomna tíð ef hann verður ekki færður. (Gripið fram í: Hvert á hann að fara?) Hvort hann fer til Keflavíkur eða upp á Hólmsheiði er annað mál, en úr Vatnsmýrinni þarf hann að fara.

Skipulagsvaldið liggur hjá Reykjavíkurborg. Það þarf að virða með sama hætti og við sem ætlum að keyra hringveginn þurfum að virða það að Blönduósbær kemur í veg fyrir að við getum farið nýjan hringveg fram hjá Blönduósi. Lög um landsskipulag eru að þessu leyti um margt gölluð. Þau þarf að endurskoða með hliðsjón af fleiru en Vatnsmýrinni, (Forseti hringir.) en flugvöllurinn þarf að fara þaðan, það er alveg ljóst.