141. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2012.

störf þingsins.

[15:01]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. „Quis custodiet ipsos custodes?“ spurðu Rómverjar í gamla daga. „Hver gætir gæslumannanna?“

Þeir sem eiga að passa, hver passar þá? spurðu þeir og ekki vanþörf á því, að þótt stjórnkerfið í Róm hafi verið gott fyrir sinn tíma, skilvirkt og traust, var það ekki alveg laust við klíentisma, spillingu og skyldleikaáhrif af ýmsu tagi.

Nú er svo komið á þinginu að við hljótum að spyrja sömu spurningar, „Quis custodiet ipsos custodes?“, vegna þess hvernig Ríkisendurskoðun hefur hegðað sér, hún sem við erum vön að treysta til þeirra verka sem henni eru falin og hún tekur að sér. Það vakna spurningar um trúverðugleika hennar í því máli sem hér hefur verið til umræðu undanfarna daga. Annars vegar vegna þess að hún lýkur ekki málinu. Hún er árum saman með málið í vörslu sinni. Svo er hitt að bæði fyrrverandi og núverandi ríkisendurskoðendur hafa ákveðin tengsl við lykilmenn í málinu, því miður.

Það þýðir ekki að það eigi að fara með hörku og skammast yfir því, en það býr auðvitað til spurningu um vanhæfi. Þá er að minna á að í máli sem upp kom fyrir tæpu ári, í nóvember í fyrra, kom líka upp spurning um vanhæfi ríkisendurskoðanda þegar nefnd í þessu þingi fór þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún skilaði skýrslu um Vaðlaheiðargöng. Þá svaraði Ríkisendurskoðun svo að fyrir utan að hún væri ekki lögskyld að gera það tengdist Sveinn Arason ríkisendurskoðandi alþingismanni og stjórnarmanni í Vaðlaheiðargöngum ehf. fjölskylduböndum og væri því vanhæfur til að sinna verkefninu. Þá vöknuðu einnig spurningar um áhrif vanhæfis Sveins á hæfi annarra starfsmanna stofnunarinnar og sagði í frétt Ríkisútvarpsins um málið 21. nóvember, með leyfi forseta, „í ljósi reglna um undirmannsvanhæfi“. (Forseti hringir.)

Forseti þarf að kanna þetta og svara okkur því hvað hann ætlar að gera, hvernig hann ætlar að leiðbeina ríkisendurskoðanda og Ríkisendurskoðun því að sá eini (Forseti hringir.) sem getur gætt þessa gæslumanns er forseti Alþingis.