141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann sagði að Landsvirkjun hefði ekki skilað neitt voðalega góðum arði. Það vill svo til að ríki og sveitarfélög — fyrst var Reykjavíkurborg með í að byggja Sogsvirkjanir — hafa aldrei lagt neina peninga í þetta fyrirtæki, lítið sem ekkert. Eigið fé Landsvirkjunar er 200 milljarðar, hvorki meira né minna. Einhvers staðar hefur það eigið fé orðið til, væntanlega með hagnaði, það er ekki hægt öðruvísi fyrst það er ekkert eiginfjárframlag eigenda. 200 milljarðar er ekkert lítil upphæð og ágætisbúbót til að tryggja eignastöðu Íslands af því að þetta er ríkisfyrirtæki.

Hv. þingmaður sagði líka að virkjunarsinnar eins og ég væru eiginlega á öðrum kantinum. Ég tel mig líka vera náttúruverndarsinna, það er svo merkilegt. Ég horfi upp á hvað er búið að umbylta náttúrunni hérna í Reykjavík og enginn segir neitt við því. Það er engin strönd hérna í Reykjavík óhreyfð. Menn segja ekkert við því, en ef það á að velta við steini við Kárahnjúkavirkjun verður allt vitlaust. Menn eru ekki sjálfum sér samkvæmir. Auðvitað ætti að banna byggingar í Reykjavík með sömu rökum.

Ég fór upp í Kárahnjúkavirkjun á vegum iðnaðarnefndar áður en þar var byggt. Í mínum huga var þetta bara auðn og enginn vegur. Það var hægt að hossast þarna á ómögulegum vegum. Nú eru fínir vegir þarna og túristar laðast að og vilja sjá þessa fallegu stíflu og þetta fallega stöðuvatn sem kemur upp af því eins og Elliðavatn, sem er mjög fallegt líka og er uppistöðulón og hefði sennilega verið bannað með sömu rökum í dag. (Gripið fram í.)