141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[20:10]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok umræðunnar þakka fyrir hana og það hversu vítt og breitt menn hafa farið þó að ég hafi nú á köflum verið hugsi yfir því á hvaða plani umræðan hefur verið, ef svo má að orði komast.

Mig langar að drepa hér á nokkrum atriðum ef mér gefst tími til. Einhvern tíma hefðum við getað lagt hér inn dag eða nokkra daga í það að ræða bara um Þeistareyki eða ræða bara um Bitru eða ræða bara um Þjórsá. Hér er nefnilega undir alveg risastórt mál, við erum að tala um 67 kosti. Ég tek heils hugar undir orð þeirra hv. þingmanna sem hafa talað um það mikla vald sem við erum að taka okkur hér, núlifandi kynslóð, sem er þó að reka endahnútinn á ákveðið, gríðarlega mikilvægt ferli í þágu þess að taka landið úr nýtingarflokki, sem það hefur allt verið, og færa hluta af landinu í skjól sem er gríðarlega mikilvægt í þágu framtíðarinnar, komandi kynslóða og náttúruverndar. Þannig sé ég það.

Margir hafa fjallað sérstaklega um hin meintu ómálefnalegu vinnubrögð. Þá vil ég segja þetta: Hvert er hlutverk ráðherra ef það er ekki að leggja fram stefnumarkandi mál eins og rammaáætlun? Hvert er hlutverk ráðherra ef það er ekki að leggja líka fram samgönguáætlun, fjarskiptaáætlun o.fl. og bera ábyrgð á þeim á grundvelli stefnumótunar, á grundvelli samráðs o.s.frv.?

Þetta er samsetning stjórnskipunarinnar á Íslandi þar sem ráðherrar sitja í umboði þingsins og koma fram samkvæmt lögum með stefnumótun sem þingið tekur síðan afstöðu til. Það er ekkert óvenjulegt við þá framsetningu sem hér er samþykkt í lögum, þ.e. að ráðherra viðkomandi málaflokks beri málið fram í sínu nafni og þingið taki síðan afstöðu til þess.

Það sem er óvenjulegt er í fyrsta lagi það að óvenjulega sterkur, efnislegur og faglegur grunnur liggur til grundvallar og í öðru lagi að ráðherranum er gert að eiga samráð við annan ráðherra um málið. Þetta tvennt er óvenjulegt. Að öðru leytinu til eru þetta algjörlega venjuleg vinnubrögð. Hvert einasta skref í þessu efni — einmitt vegna þess sem hér hefur komið fram í umræðunni — var hugsað, metið og faglega rökstutt, hver einasta ákvörðun sem tekin var í þessu ferli og hvert einasta viðbragð við athugasemdum. Þessi niðurstaða sem er svo óveruleg að þau gífuryrði sem hér hafa fallið í dag eru langt umfram tilefni, sem eru þau að leyfa okkur að anda tvisvar inn og tvisvar út og horfa á tvö svæði á landinu, þ.e. Þjórsá annars vegar og hálendið hins vegar.

Hvað í ósköpunum er um að vera þegar Sjálfstæðisflokkurinn leyfir sér að tala hér um skítug fingraför, pólitísk vinnubrögð (Gripið fram í.) o.s.frv. og ganga svo langt að tala meira að segja um að ferlið til 13 ára sé svo illa laskað að menn áskilji sér rétt til að setja landið allt aftur í nýtingarflokk? En þetta mátti skilja á orðum hv. þm. Péturs H. Blöndals. (PHB: Það sagði ég aldrei.) Þetta finnst mér vera umhugsunarefni. Þetta var staðan áður en rammaáætlun var lögð fram og það er staða sem við viljum sjá breytast í þágu komandi kynslóða.

Mig langar til að nefna það líka að sú ákvörðun að setja svæði í biðflokk er einmitt ákvörðun um að kalla eftir frekari fagmennsku. Ég er að segja: Hér lítum við, hið pólitíska vald, svo á að við þurfum enn skýrari rök fyrir endanlegri flokkun. Og hvaða rök eru það? Það eru ekki samningafundir við sjálfstæðismenn. Það eru fagleg rök sem þurfa að liggja til grundvallar. Það er það sem við erum að biðja um. Eina breytingin sem gerð er er að færa svæði í biðflokkinn til að gefa okkur meiri tíma. Það er nú allt og sumt. Það er ekki efni í að súpa þær hveljur sem hér hafa verið sopnar í dag.

Varðandi eitt tiltekið atriði sem ekki hefur kannski fengið nægilegt rými í þeirri efnislegu umræðu sem hefur átt sér stað í dag, þ.e. umræða um brennisteinsvetnið. Í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar kom fram að hér væri meiri áhersla á jarðhitavirkjanir en vatnsaflsvirkjanir. Það kemur ekki til af góðu. Það kemur til af því að við erum búin að ganga svo mikið á vatnsaflið. Við erum búin að virkja tvo þriðju af virkjanlegu vatnsafli á Íslandi. Þar, eðlilega, gerist það að það hlýtur að koma að einhverjum mörkum þó að menn hafi stundum látið að því liggja að þær auðlindir væru ótakmarkaðar. Þess vegna, og það kemur sem sagt ekki til af góðu, er meiri áhersla í áætluninni á jarðhitavirkjanir.

Í texta þingsályktunartillögunnar, og ég vil vekja sérstaka athygli á því, er sérstakur kafli þar sem eru áréttuð sérstök sjónarmið sem varða brennisteinsmengun og niðurdælingar og jarðskjálftavirkni af völdum jarðhitavirkjana.

Í gildi er reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti sem mun ná til virkjunarkosta á háhitasvæðum, á öllum háhitasvæðum. Ég hef áhyggjur af tveimur svæðum, annars vegar Reykjanesskaga og Hellisheiði sem eru í nágrenni byggðar, en ekki síður af Mývatnssvæðinu fyrir norðan sem er í nágrenni mikilla náttúruverndarsvæða og uppbyggingarsvæða í þágu ferðaþjónustu.

Þarna er ekki hægt að stíga skref, frekari skref til virkjunar öðruvísi en að tryggja það að losun á þessum efnum sé innan þeirra marka sem reglugerðin kveður á um og kveðið verður á í leyfum. Þess vegna eru þau sjónarmið sem hér hafa verið viðruð gríðarlega mikilvæg. Nýtingarflokkurinn þýðir að málið er einfaldlega komið á dagskrá þeirra sem vilja skoða möguleika á nýtingu. Það má virkja gegn því að viðkomandi möguleiki komist í gegnum öll nálaraugun, hvert eitt og einasta. Allt skoðunarferlið, allt rannsóknarferlið, allt matsferlið, skipulagsferlið o.s.frv. og það þarf að skoða hvern einasta kost vel. Það gildir ekki síst um jarðhitasvæðin þar sem við erum enn þá að verða okkur úti um þekkingargrunn.

Við töluðum hér fyrir örfáum árum eins og hægt væri að moka upp orku úr þeim svæðum. Ekki eru mörg missiri síðan menn stóðu í ræðustól Alþingis og töluðu um 400 megavött undir Krýsuvík. Það dettur ekki nokkrum manni í hug að segja þetta lengur. Við erum smám saman að átta okkur á því að þetta er viðkvæm auðlind sem verður að ganga um á sérstaklega varfærinn hátt þar sem við tökum eitt skref í einu en ekki þau skref sem voru stigin til að mynda á Hellisheiðinni þegar þar var virkjað.

Að lokum vil ég segja um verkefnið í heild: Rammaáætlun og verkefnið í heild sem við erum að vinna er ekki bara mikilvægt fyrir Ísland, það er líka merkilegt fyrir heiminn. Hv. þm. Pétur H. Blöndal heldur því nú gjarnan til haga en þá aðeins undir öðrum formerkjum. Það er mikilvægt fyrir heiminn vegna þess að hér eru jarðminjar og lífríki sem er hvergi annars staðar til. Hérna erum við að tala um náttúrufar sem er hvergi annars staðar til. Þess vegna erum við að taka ákvarðanir sem varða ekki bara komandi kynslóðir heldur allan heiminn. Þær varða jörðina og það er kominn tími til þess virðulegur forseti, að Ísland sé til fyrirmyndar í því hvernig við umgöngumst auðlindir okkar.

Íslendingar skilja eftir sig subbulegri vistspor en nokkur önnur þjóð í heiminum. (Gripið fram í: Ha?) Við þyrftum 21 jörð ef allur heimurinn væri eins og Íslendingar. Það er staðan. Ég hef stundum leyft mér að segja að það sé happ Íslands hversu fáir Íslendingar eru. Að það sé okkar mikla happ vegna þess að við göngum að jafnaði frekar illa um landið okkar og sýnum því ekki nægilega virðingu. Umræðan um ágenga nýtingu, sjálfbæra þróun varðar ekki bara okkur hér á Íslandi heldur heiminn allan. Þess vegna þurfum við að umgangast þessa umræðu hér líka af ábyrgð vegna þess að þar getum við lagt lóð á vogarskálar sáttar sem ég tel að sé afar mikilvæg.

Ég tel að vinnubrögðin séu til fyrirmyndar og ég tel að niðurstaðan sem er í þágu sjálfbærni og ábyrgðar gagnvart komandi kynslóðum sé niðurstaða sem við getum verið mjög sátt við og getum gengið þá stolt frá borði ef þetta verður úr. Ég er tilbúin til að standa með þessari niðurstöðu og vænti góðs samstarfs við umhverfis- og samgöngunefnd í hennar mikilvægu störfum.