141. löggjafarþing — 14. fundur,  8. okt. 2012.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

[15:15]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það var eins hjá okkur í Norðausturkjördæmi, það var líka kjördæmavika, hana bar upp á sama tíma, það er svona eins og maðurinn sagði sem hv. fyrirspyrjandi þekkir: Í dag er 17. júní um allt land, á sama tíma um allt land og kjördæmavikan er á sama tíma um allt land.

Þessi mál bar svo sannarlega líka á góma hjá okkur og ekki síst húshitunarkostnaðinn sem er mjög tilfinnanlegur. Á það hefur verið bent af aðilum sem sérhæfa sig í að greina byggðamál og byggðavanda að það er væntanlega ekki tilviljun að byggðaþróun er óhagstæðust á þeim þrem svæðum á landinu sem búa við þessar aðstæður. Það eru allt köld svæði, Vestfirðir, Norðausturhornið og Suðausturlandið.

Varðandi skýrsluna og tillögurnar hefur verið unnið að því síðan sú skýrsla kom út að skoða hvort sú leið sé fær og hv. þingmaður spyr að því. Það er ekki víst. Það er síður en svo víst að okkur sé stætt á því að fara þá leið innri jöfnunar í kerfinu sem auðvitað væri langæskilegust og jafna þetta innan orkubúskaparins. En þá kemur ýmislegt til, þar á meðal evrópskar tilskipanir og raforkutilskipunin og uppskiptingin og kostnaðarréttargjaldskrár á mismunandi svæðum og allt þetta sem framsóknarmenn þekkja mjög vel til því að það var í þeirra tíð sem það var innleitt. Það verður því að segja þá sögu eins og hún er að það er ekki víst að tillögur þessarar nefndar og skýrslunnar, svo ágætar sem þær eru, séu framkvæmanlegar, alla vega ekki í óbreyttri mynd.

Þá stendur eftir spurningin: Ætla menn þá ekkert að gera? Ég tel það óásættanlegt. Það er ósköp einfalt að þá verða menn að verja meiri fjármunum til beinnar niðurgreiðslu á húshitunarkostnaðinum sem slíkum og/eða til flutningskostnaðarins á dreifbýlisgjaldskrársvæðunum. Það er okkur heimilt, það er hafið yfir vafa, engar evrópskar reglur banna það. En fjárhagur ríkisins hefur verið þröngur og menn hafa ekki treyst sér til að auka útgjöld á þessu sviði frekar en öðrum. En ég tel (Forseti hringir.) að þessi ójöfnuður sé orðinn slíkur að við hann verði ekki búið.