141. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2012.

staða ferðaþjónustunnar.

[15:17]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég held að það eigi kannski ekki að gleymast alveg í þessari umræðu, það hefur enginn nefnt það, að við erum að koma með ríkissjóð út úr gríðarlegum hallarekstri. Það hefur að vísu gengið vel að ná honum niður en enn erum við ekki komin alveg í mark. Við höfum auðvitað þurft að bera niður þar sem við teljum að svigrúm sé til þess að aðilar leggi meira af mörkum. Hví skyldi þessi grein þá ekki líka koma til skoðunar? Vísa ég þá í það sem áður hefur verið sagt um jafnræði milli atvinnugreina hvað skattlagningu varðar og annað í þeim dúr.

Ef við viljum skoða skattlagningu á grein af þessu tagi í heild sinni þarf líka að líta til tekjuskatts og annars skattaumhverfis og þá stendur Ísland enn vel og mundi gera eftir þessa hækkun, með um það bil 25%–26% heildarskattlagningu í virðisaukaskatti og tekjuskatti þar sem Noregur er með 33%, Danmörk með 40% og hún er sennilega vel yfir 30% að meðaltali í Evrópu.

Í þriðja lagi vil ég nefna að menn hafa haft áhyggjur af ráðstefnugestum. Sumir hafa talið að þetta mundi sérstaklega bitna á þeim markaði, sem er nú mikill misskilningur. Virðisaukaskattur á hótelgistingu hjá öllum þeim sem eru á ráðstefnu á vegum virðisaukaskattskylds aðila eru nefnilega endurgreiðanlegar samkvæmt gildandi reglugerð þar um, reglugerð nr. 288/1995 um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra lögaðila.

Það verður líka að líta til sögunnar. Árið 2007 lækka menn í rausnarskap sínum virðisaukaskatt á hótelgistingu og veitingahúsum — í þenslunni — niður í 7% með mat og menningu. (Gripið fram í: Hvernig stendur á því?) Árið eftir hrynur gengi krónunnar. Þannig að það myndast geysilega hagstæð starfs- og samkeppnisskilyrði fyrir þessa grein og að þeim hefur hún búið síðan. Ég er ekki viss um að það hafi nú allt skilað sér í verðlækkun til kúnnanna. Þannig að auðvitað er eðlilegt að skoða þetta með sama hætti og menn hafa horft til góðrar afkomu sjávarútvegsins varðandi greiðslu sérstakra veiðigjalda eða til batnandi afkomu Landsvirkjunar með greiðslu arðs og svo framvegis.

Það er líka rétt, sem hér er sagt, að markmiðið á ekki bara að vera aukinn fjöldi ferðamanna heldur líka að þeir ferðamenn sem hingað koma skilji sem mest eftir í hagkerfinu (Forseti hringir.) og að þeir séu að breyttu breytanda að borga fyrir sem mesta þjónustu hér þar á meðal vandaða hótelgistingu. (Forseti hringir.) En hér þarf að hafa mörg slík sjónarmið undir og satt best að segja finnst mér ekki að upphróp og (Forseti hringir.) hræðsluáróður skili okkur neitt áfram í umræðum um þessi mál.