141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:15]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur vafalaust fylgst með umræðum hér í gær þar sem við tókum einmitt allítarlega umræðu um 3. gr. og þennan lista. Ég lít svo á að þarna sé verið að setja mjög ríkar kvaðir á Ríkisútvarpið sem ekki er unnt að setja á nokkurn annan fjölmiðil þó að þeir kjósi að sinna einu og öðru af þessum lista. Ég nefni til að mynda skyldur Ríkisútvarpsins gagnvart landinu öllu, bæði að flytja fréttir frá landinu öllu og líka að dreifa efnis til landsins alls. Ég nefni líka varðveisluhlutverk Ríkisútvarpsins hvað varðar hljóðritanir, filmur, myndefni og annað. Ég nefni öryggisþjónustuna. Þetta eru því ríkar kvaðir, en stóra málið tel ég vera að þarna er atlaga gerð að því að skilgreina betur hlutverk og kvaðir Ríkisútvarpsins sem er væntanlega ástæðan fyrir því að við kjósum að reka hér almannaþjónustufjölmiðil.