141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá ráðherranum að í þessu ákvæði eru fjölmargar kvaðir sem lagðar eru á Ríkisútvarpið. Það er alveg rétt líka að það greinir Ríkisútvarpið frá öðrum fjölmiðlum að það hefur slíkum skyldum að gegna.

Á hinn bóginn get ég ekki annað en vakið athygli á því að fyrir utan þau atriði sem Ríkisútvarpinu er beinlínis skylt að sinna er því, með túlkun á þessu ákvæði og með því að lesa það og önnur ákvæði frumvarpsins, hægt að heimfæra það þannig að fyrir utan hina skyldubundnu starfsemi og það sem kvaðirnar ná til geti Ríkisútvarpið gert nánast hvað sem því dettur í hug annað, jafnvel þótt þar sé hugsanlega fyrir hendi virk og öflug samkeppni einkaaðila á markaði.