141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu.

29. mál
[17:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingmál um forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Ég vil koma því á framfæri að ég tel mikilvægt að lögreglan fái þessar heimildir til samræmis við svipaðar stofnanir annars staðar á Norðurlöndum. Ég hef ekki ástæðu til að óttast að lögreglan misfari með þessar heimildir á nokkurn einasta hátt. Við vitum að Íslendingar treysta lögreglunni næstbest allra stofnana, einungis Landhelgisgæslan nýtur meira trausts. 83% Íslendinga treysta lögreglunni og því held ég að við þurfum ekki að óttast að lögreglan misfari með heimildir sem hún kann að fá.

Ísland hefur breyst og er orðið þátttakandi í hinu alþjóðlega samfélagi og því fylgja líka glæpir og glæpastarfsemi. Þegar ástandið er orðið þannig að lögreglumönnum er ógnað, fingur eru klipptir af fólki eða það læst ofan í skotti á bifreiðum þá hljótum við að þurfa að taka það inn í myndina og bregðast við. Ef við getum komið í veg fyrir eitthvað slíkt með því að færa lögreglunni frekari heimildir er það gott. Ég tel það vera hluta af frelsinu að vera öruggur í landinu. Það er frelsi okkar að geta labbað hér um göturnar, farið að skemmta okkur eða átt viðskipti við einhverja án þess að vera hótað eða lenda í limlestingum.

Ég tek undir að það er mikilvægt að það eftirlit sem verður með þessum heimildum verði virt, skilvirkt og virki. Við verðum að hafa í huga að einhverjum kann að finnast að verið sé að skerða frelsi hans á einhvern hátt með þessu og þá verðum við að bregðast við því með því að tryggja skilvirkt eftirlit. Ég lít svo á að það sé verið að vernda mitt frelsi með því að auka heimildir lögreglu með þessum hætti.

Það kom hér fram áðan að Norðmenn hefðu sagt að þeir vildu ekki breyta samfélagi sínu. Það er rétt, þeir vilja ekki breyta samfélaginu á þann veg að hverfa frá fjölmenningarsamfélagi yfir í einsleitt samfélag. Þeir eru hins vegar að gera ýmsar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að atburðir eins og það óhæfuverk sem var unnið fyrir rúmu ári endurtaki sig. Þeir eru að fara yfir sína hluti og beita ýmsum aðferðum þar að lútandi, að því komumst við í þjóðaröryggisnefnd þegar við vorum í Noregi um daginn.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir þurfti að hverfa héðan á brott til að sinna öðrum erindum. Hún hefur unnið að þessu máli mjög lengi. Þetta er henni mikið kappsmál og okkur sem erum meðflutningsmenn að þessu máli. 1. flutningsmaður, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, leggur mikla áherslu á að þetta mál verði klárað nú í haust eða fyrir jól svo að ráðuneytinu gefist tími til að bregðast við og koma með frumvarp eða nauðsynlegar breytingar fyrir næsta vor.

Herra forseti. Ég ætla ekki hafa þetta lengra. Ég ítreka að þetta er gott mál og það vona ég svo sannarlega að Alþingi sýni í verki.