141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

framkvæmdir Landsvirkjunar í Þingeyjarsýslum.

[13:49]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Fyrir ekki svo löngu var hæstv. iðnaðarráðherra hér í pontu og lýsti því yfir að íbúar í Þingeyjarsýslum mættu vænta mikillar uppbyggingar í atvinnumálum á næstu missirum, eins og það var orðað. Því skýtur svolítið skökku við að nú þegar Landsvirkjun hefur hafið undirbúningsframkvæmdir á þessu svæði við virkjanir koma hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar frá Vinstri grænum og lýsa mikilli andstöðu við þetta mál. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir vitnaði til þess að þetta væri brigð á þegjandi samkomulagi um að ríkisfyrirtækin héldu að sér höndum í virkjanaæði, eins og það var orðað, á meðan rammaáætlun væri ekki afgreidd. Hún sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að hún hefði vænst þess að fá yfirlýsingu frá Landsvirkjun um að að eigin frumkvæði mundi hún stöðva framkvæmdir og láta fara fram nýtt umhverfismat.

Hæstv. ráðherra Svandís Svavarsdóttir sagði að hún vildi að Landsvirkjun gengi í takt við þingið og héldi að sér höndum í þessu máli og sagði síðan að hún vildi sjá það almennt að þeir aðilar sem vinna að framkvæmdum í þágu virkjana biðu átekta meðan Alþingi lyki þeirri umræðu sem væri í gangi.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, kannast ekki við þetta þegjandi samkomulag sem hér var vitnað til og segir að á móti hafi verið verulegur þrýstingur frá stjórnvöldum um að rammaáætlun mundi ekki tefja uppbyggingu á þessu svæði. Ég vil því spyrja hæstv. atvinnuvegaráðherra og formann Vinstri græna um afstöðu hans í þessu máli, hvort hann telji að Landsvirkjun sé að vinna þarna í lögboðnu og eðlilegu ferli og hvort hann sé sáttur við þessar framkvæmdir eða hvort hann taki undir með samráðherra sínum og hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um að það eigi að stöðva þessar framkvæmdir, (Forseti hringir.) þó þann litla neista sem hefur verið gefinn inn á þetta svæði í langan tíma.