141. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2012.

neytendalán.

220. mál
[17:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu. Hann kvartaði og kveinaði undan því að ekki hefðu verið uppi félagsleg úrræði í húsnæðismálum.

Nú vill svo til að hann hefur setið í ríkisstjórn í nærri fjögur ár. Ég er alveg hlessa á því að í þessari velferðarstjórn skuli menn ekki hafa komið með úrræði hvað varðar félagslegt húsnæði. Mér finnst að hæstv. ráðherra eigi ekki að kvarta svona, hann eigi bara að líta í eigin barm og spyrja: Hvað hef ég gert í fjögur ár í því að auka valkosti í félagslegu húsnæði?

Leigjendum hefur fjölgað úr því að vera 18% af heimilum í landinu upp fyrir 25% við hrunið. Þetta er ógnvænleg þróun og staða leigjenda er mjög slæm. Það virðist vera, herra forseti, að sá eini sem hefur áhuga á stöðu leigjenda á hinu háa Alþingi sé sá sem nú stendur í ræðustól. Aðrir hafa ekki talað um vandamál leigjenda heldur hefur hér verið endalaus umræða um vandamál skuldara. Það vill svo til að fjórðungur heimila býr í leiguhúsnæði og skuldar þá ekki vegna húsnæðis. Um fimmtungur, eða nærri fjórðungur, býr í húsnæði sem hann skuldar ekkert í, skuldlausu húsnæði. (Gripið fram í.) — Nei, það fer eftir því hvernig maður skilgreinir fjölskyldu en mér skilst að um 21% eigi skuldlaust húsnæði. Það er nærri því helmingur heimila í landinu sem annaðhvort leigir eða býr í skuldlausu húsnæði, er sem sagt ekki með íbúðaskuldir. En öll umræðan snýst um íbúðaskuldir.

Ég skora á hæstv. ráðherra, fyrst hann vill koma með félagsleg úrræði í húsnæðismálum, að gera það. Hann er í ríkisstjórn, það vill svo til. Hann getur ekki kennt Sjálfstæðisflokknum um það sem hann hefur ekki gert eftir hrun þar sem hann hefur verið í ríkisstjórn frá 1. janúar 2009. (Gripið fram í.) Mér þótti það dálítið skarpt að vera að kvarta undan því að ekkert hefði verið gert.