141. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2012.

upplýsingalög.

215. mál
[17:11]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg á því að möguleiki eigi að vera á að vinna málið tiltölulega hratt í ljósi þess að það hefur fengið verulega umfjöllun áður. Álitamálin eru kannski þekkt að miklu leyti. Yfirferð nefndarinnar er langt í frá að vera einhver frumyfirferð sem kallar á það að upplýsingar séu leiddar fram um öll atriði málsins alveg frá einhverjum núllpunkti. Við erum alls ekkert á þeim stað. Ég get því alveg tekið undir með hv. þingmanni um það.

Hvað varðar aftur stöðu þessa máls í heildarsamhengi þeirra mála sem hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er að fjalla um og þarf að fjalla um, þá verð ég að játa það að á þessari stundu hef ég bara ekki þá yfirsýn yfir það að ég geti tímasett þetta mál. Ef það fer í forgang fram yfir önnur mál er enginn vandi að klára það á skömmum tíma. En vandinn er auðvitað sá, eins og hv. þingmaður þekkir manna best, að verkefni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar eru afar mörg, flókin, viðamikil, sum mjög umdeild, ekki öll, og ég treysti mér bara ekki til að svara því hvar þetta lendir í forgangsröðinni. Við eigum eftir að sjá hvað við höfum að gera í þessari ágætu og merku nefnd á næstu vikum áður en við getum svarað því.

En í þessu máli eins og það liggur nú fyrir er ekki tilefni til mjög mikillar yfirferðar en þó einhverrar.