141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

endurmat á aðildarumsókn að ESB.

[10:48]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Við hv. þingmaður erum sammála í þessu efni, um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Sumir hafa það vinnulag í stjórnmálum þegar þeir sjá samstöðu einhvers staðar að telja það líklegast til árangurs að sundra henni. Hann veit hver mín afstaða er, við erum sammála um þetta mál. Ég mundi nota annað hugtak en neyðaróp eða neyð um það sem hér er að ræða, en ég er því fylgjandi að slíkt endurmat fari fram og hef vakið máls á því og tekið upp slíka umræðu innan þess stjórnmálaflokks sem ég heyri til, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Sú umræða hefur að sönnu staðið yfir um alllangt skeið en ekki verið nægilega markviss að mínu mati. Ég tel alveg sýnt að við förum ekki inn í annað kjörtímabil með þetta hangandi yfir okkur, að minnsta kosti verður ekki unað við óbreytt ástand. Við þurfum að fá lyktir í þessa umræðu og endurmat þar sem áherslur manna, einnig innan míns flokks og innan stjórnarliðsins almennt, eru mismunandi. Við þurfum að fá lyktir í þá umræðu. Ég tel það afar brýnt vegna þess að skuldbindingar okkar sem höfum staðið að þessum málum hafa náð til þessa kjörtímabils en ekki er um að ræða óútfylltan tékka um ókominn tíma, alls ekki. Það er deginum ljósara.

Það er mín skoðun að endurmat sé nauðsynlegt í ljósi gerbreyttra aðstæðna í Evrópu, innan Evrópusambandsins, þar sem gjaldmiðillinn gengur í gegnum eitthvert versta erfiðleikatímabil nokkru sinni (Forseti hringir.) og efnahagurinn þar á bæ er allt annar en hann var fyrir fáeinum árum, þó að afstaða mín grundvallist á öðru en þessum þáttum einum.