141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[14:23]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að fagna því að hér skuli loks fara fram efnisleg umræða um tillögur um breytingar á stjórnarskrá. Það er orðið löngu tímabært og hefði þurft miklu lengri tíma í þá umræðu en þá tvo klukkutíma sem gert er ráð fyrir að varið verði í umræðuna. Fulltrúar í stjórnlagaráði hafa bent á að það hafi skaðað ferlið að þingið skyldi ekki hafa tekið þetta mál til efnislegrar umræðu miklu fyrr, þó að raunar séu ekki allir fulltrúar stjórnlagaráðs sammála um þá túlkun. Það er alla vega ljóst að hvernig sem þetta mál allt þróast mun Alþingi á endanum þurfa að klára það. Málið kemur alltaf aftur til Alþingis því að samkvæmt núgildandi stjórnarskrá er það Alþingi sem breytir stjórnarskránni.

Ég ætla á þeim tiltölulega stutta tíma sem ég hef hér að velta upp nokkrum atriðum sem ég tel að huga þurfi sérstaklega að í tillögum stjórnlagaráðs, en þó er ljóst að á þeim tíma sem gefinn er í þessa umræðu verður ekki hægt að fara yfir nema brot af þeim atriðum sem eðlilegt hefði verið að þingið færi yfir áður en að atkvæðagreiðslu kemur.

Það er til að mynda mjög erfitt að gera sér grein fyrir því eftir ræðu hæstv. forsætisráðherra hvernig hæstv. ráðherra lítur þetta mál. Eiginlega var það að skilja á máli hennar að hún væri hlynnt öllu í tillögum stjórnlagaráðs enda taldi hún mikilvægt að þær yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá, en ef málið yrði fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu mætti ekki leggja tillögurnar til grundvallar nýrri stjórnarskrá, ekki nema þau fimm atriði eða frá einu til fimm atriða sem kynnu að verða samþykkt, þ.e. aukaspurningarnar. Þetta stenst náttúrlega enga skoðun enda er margt í tillögum stjórnlagaráðs í samræmi við núgildandi stjórnarskrá og þar af leiðandi er ekki hægt að halda því fram að það að fella þessa tillögu nú þýði að allt sem þar kemur fram sé endanlega úr sögunni og megi ekki vera í stjórnarskrá Íslands. Því miður er þetta lýsandi fyrir hversu ruglingslegur málflutningur stjórnvalda er orðinn og enn ein áminningin um það að æskilegt hefði verið að taka þessa umræðu í þinginu miklu fyrr.

Það er grundvallaratriði þegar kemur að breytingum á stjórnarskrá að um þær ríki sem víðtækust sátt. Það hefur verið stefnan sem unnið hefur verið út frá við allar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og yfirleitt gengið mjög vel. Það er helst þegar menn hafa verið að breyta kjördæmaskipan að það hafi verið gert í ágreiningi.

Nefnd undir forustu Jóns Kristjánssonar hafði unnið mikið og gott starf við undirbúning breytinga á stjórnarskrá en það strandaði á sínum tíma fyrst og fremst á því að menn greindi á um það, líklega einkum og sér í lagi þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, hvort og með hvaða hætti ætti að breyta ákvæðum um synjunarvald forseta Íslands.

Nú eru lagðar fram nýjar tillögur um stöðu forsetans og þær tillögur eru einmitt gott dæmi um hluta af því sem þarf að skýra miklu betur í þessu máli. Við þingsetningu í fyrra flutti forseti lýðveldisins ræðu þar sem hann túlkaði tillögur stjórnlagaráðs er varða forsetaembættið. Í framhaldi af því kom í ljós að það var ekki bara dálítill álitamunur á því hvernig fólk túlkaði þessar tillögur heldur var gríðarlegur munur á því hvaða merkingu menn lögðu í tillögurnar varðandi hlutverk og stöðu forsetaembættisins, bæði innan þess hóps sem myndaði stjórnlagaráðið og meðal annarra. Það að stjórnarskrá skuli vera það óljós að menn geti túlkað hana í raun alveg í 180° er ekki æskilegt. Stjórnarskrá þarf að uppfylla þau skilyrði að um hana ríki sem víðtækust sátt og jafnframt að hún sé skiljanleg, að allir skilji hana nokkurn veginn á sama hátt. Það má vel halda því fram að núgildandi stjórnarskrá uppfylli ekki algjörlega síðarnefnda skilyrðið. Menn hafa ólíka skoðun á því, eins og komið hefur í ljós sérstaklega síðari missiri, hvernig eigi að túlka ákvæði núgildandi stjórnarskrár, en þá á það að vera markmið þingmanna og annarra sem koma að breytingu stjórnarskrárinnar að laga það þannig að stjórnarskráin verði skýrari en hún er nú.

Annað sem hefur verið gagnrýnt sérstaklega er að orðalag mannréttindakaflans sé of óljóst og geti jafnvel verið þversagnakennt. Mannréttindakafli núgildandi stjórnarskrár er einn af þeim köflum sem hafa tekið miklum breytingum. Það er rétt að halda því til haga, vegna orða hæstv. forsætisráðherra um að stjórnarskráin hafi verið samþykkt til bráðabirgða á sínum tíma, að miklar breytingar hafa verið gerðar á stjórnarskránni í gegnum tíðina og ekki hvað síst á mannréttindakaflanum árið 1995. En nýjar tillögur um mannréttindakaflann hafa vakið talsverða umræðu, ekki hvað síst meðal lögfræðinga sem hafa bent á að þar þurfi að huga betur að ýmsu áður en hægt er að leiða það í stjórnarskrá.

Jafnframt hafa sérfræðingar sem um málið hafa fjallað vakið athygli á því að kaflar er varða stjórnskipunina, þ.e. uppbyggingu stjórnkerfisins, kunni að vera á vissan hátt þversagnakenndir. Þetta er eitt af því sem sérstakur hópur lögfræðinga fer nú yfir. Við skulum hafa það hugfast að þingið samþykkti sérstaklega að láta sérfræðihóp fara yfir þetta mál og augljóst má telja að það hefði verið mun skynsamlegra að sá hópur fengi að ljúka störfum áður en málið yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. En menn gátu ekki beðið eftir því og þar af leiðandi er óvissa um mjög mörg atriði sem hefði hugsanlega mátt eyða eða að minnsta kosti draga úr áður en að atkvæðagreiðslu kæmi.

Menn hafa mikið rætt um þá möguleika sem skapast á því að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um hin ýmsu mál. Þar er mjög stórri spurningu ósvarað, grundvallarspurningu, spurningunni um það hversu stór hluti landsmanna þurfi að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það má eiginlega segja að þar sé ekki um stigsmun að ræða heldur eðlismun því að það er tiltölulega auðvelt að fá 10% kosningabærra manna til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Ritstjóri dagblaðs, við getum nefnt ritstjóra Morgunblaðsins sem dæmi, Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, gæti þannig ákveðið þegar hann teldi ástæðu til að setja tiltekið mál í þjóðaratkvæðagreiðslu að kalla eftir henni og safna á tiltölulega stuttum tíma 10% kosningabærra manna til að styðja þá kröfu. Getur það verið hugsunin hjá núverandi ríkisstjórn eða þeim sem hafa hvað mest talað fyrir því að hafa þennan þröskuld sem lægstan að Davíð Oddsson hafi meira um málin að segja, geti ákveðið hvaða mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu? Varla, miðað við hvernig það sama fólk hefur talað um ritstjóra Morgunblaðsins. Þar af leiðandi hljóta menn að velta því fyrir sér hvort þetta hlutfall verði ekki að vera nógu hátt til að hægt sé að tala um raunverulega og breiða kröfu í samfélaginu. Það hlýtur að gilda það sama um ein 10% og önnur 10%. Varla gerir fólk ráð fyrir því að einungis þau 10% sem eru sammála þeim sem fyrir þessu tala muni beita sér en önnur 10% samfélagsins láti það ógert.

Annað atriði sem þarf sérstaklega að huga að og hefur reynst nokkuð óljóst er sá möguleiki sem opnað er fyrir í tillögum stjórnlagaráðs um að 5/6 þingmanna á Alþingi geti tekið ákvarðanir um breytingu á stjórnarskrá, til að mynda framselt hluta af fullveldi ríkisins. Nokkrir fulltrúa stjórnlagaráðs hafa bent á að þetta sé hugsað fyrst og fremst til að hægt sé að gera minni háttar breytingar án þess að fara í það mikla ferli sem hefur þurft að ganga í gegnum fram að þessu til að breyta stjórnarskrá. Sé sú raunin er mikilvægt að skýra það.

Þannig má telja upp fjölmörg atriði sem hefðu þurft frekari skýringar við, hefðu þurft miklu meiri umræðu í þinginu og hefðu þurft að fara í gegnum lögfræðilega yfirferð áður en málið yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því miður virðist þetta mál í augum stjórnvalda oft og tíðum snúast um annað en viljann til þess að finna bestu og skynsamlegustu niðurstöðuna sem sátt er um, það virðist snúast um annað en raunverulegan vilja til að nýta þá miklu vinnu sem stjórnlagaráð vann. Það er vanvirðing við það fólk sem varði miklum tíma í tillögur stjórnlagaráðs, sem margar eru prýðisgóðar, að stilla þessu upp með þeim hætti að setja þetta í atkvæðagreiðslu þar sem þess er krafist að menn segi annaðhvort segi já og þá verði málið lagt til grundvallar nýrri stjórnarskrá eða þeir segi nei og þá verði málinu hent í ruslafötuna, eins og skilja mátti á hæstv. forsætisráðherra hér áðan.

Raunar hefur sá sem mest hefur talað um þetta mál fyrir hönd stjórnlagaráðs í fjölmiðlum lýst því þannig að ef fallist verði á þessar tillögur í þjóðaratkvæðagreiðslunni megi þingið ekki breyta þar stafkrók — rétt er að taka það fram að ekki eru allir stjórnlagaráðsfulltrúar sammála um það.

Einn stjórnlagaráðsfulltrúi hefur reyndar lýst því yfir að hann muni greiða atkvæði gegn tillögunni sem hann kom sjálfur að vegna þess að málið sé ekki fullunnið. Þar komum við einmitt að kjarna vandans, því sem ég var að rekja hér áðan, að það hvernig á þessu máli hefur verið haldið hefur skemmt fyrir því. Það hefur skemmt fyrir vinnu fulltrúa í stjórnlagaráði hvernig stjórnvöld hafa haldið á málinu og það að efnisleg umræða um málið skuli fyrst nú vera að hefjast og standa einungis yfir í tvær klukkustundir rétt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna er því miður gott dæmi um það.

Hvernig sem þjóðaratkvæðagreiðslan fer er ljóst að eflaust verða gerðar breytingar á stjórnarskránni og hún endurbætt á næstu missirum. Vonandi geta menn nýtt sem flestar tillögur sem fram hafa komið í því efni, m.a. tillögur frá stjórnlagaráði, en það er ekki hægt að fallast á þau vinnubrögð sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir í þessu máli, að setja málið óklárað í þjóðaratkvæðagreiðslu og ætla síðan að túlka það eftir eigin hentugleika í framhaldinu.