141. löggjafarþing — 21. fundur,  18. okt. 2012.

stjórnarskrármál.

[15:34]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég hef aldrei upplifað þetta ferli á þann veg að það mundi ekki fara fram efnisleg umræða um nýja stjórnarskrá í þessum sal. Ég hef alltaf upplifað þetta ferli á þann veg að við höfum lagt upp með það að við ætluðum fyrst, áður en efnislega umræðan færi fram af mikilli dýpt í þessum sal, að spyrja þjóðina hvað henni fyndist og fara í þetta samráðsferli. Það hefur farið fram að stórum hluta, stærstum hluta, og ég skynjaði það aldrei öðruvísi en að víðtæk sátt ríkti um það hvernig þetta samráðsferli ætti að vera. Það var þjóðfundur, svo var stjórnarskrárnefnd sem vann úr þjóðfundinum, svo stjórnlagaráð sem skilaði tillögum, það voru 25 manns sem náðu þar samkomulagi um það hvernig stjórnarskráin ætti að vera eftir mjög ríkt umsagnarferli, og þúsundir Íslendinga sem skiluðu inn umsögnum í þeirri vinnu, og niðurstaðan er drög að stjórnarskrá.

Ég hef alltaf upplifað það þannig að hugsunin hafi verið sú að það væri núna á þessum tímapunkti, eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna um helgina, sem málið kemur inn í þingið. Þá kemur það inn í þingið með allt þetta veganesti sem mér finnst mjög mikilvægt. En ég skil ekki alveg þessa óþreyju eftir efnislegri umræðu. Efnislega umræðan hefur farið fram út um allt samfélagið og mér finnst skjóta skökku við að þeir sem hvað hæst hafa kallað eftir efnislegri umræðu í þessum sal ætli að segja nei á laugardaginn og reyna þar með að koma í veg fyrir að drögin sem smíðuð hafa verið í öllu þessu ferli komi hingað inn í þingsal. Þar mundi ferlið stöðvast ef svarið verður nei á laugardaginn. Mér finnst þetta svolítið þversagnarkennt.

Reynt er að þyrla upp moldviðri í hverju einasta skrefi í þessu máli og núna virðist mér moldviðrið vera það að reynt er að sannfæra fólk um að engu megi breyta ef svarið verður já við því að leggja eigi drögin til grundvallar nýrri stjórnarskrá, ef svarið verður já á laugardaginn. Þá er sagt að engu megi breyta. En samt stendur á kjörseðlinum nákvæmlega hver ferillinn verður. Ef svarið verður já þá verður tillaga stjórnlagaráðs lögð fram sem frumvarp og hún fer í þrjár umræður og meira að segja í umsagnarferli og allt saman. Mér finnst þetta svolítið skrýtin umræða. Við erum bara í miðju ferli og það er auðvitað galdur að vera í miðju ferli. Óþreyjan má ekki ná tökum á okkur en þetta er allt að gerast. Svo koma kosningar og svo þarf annað þing að samþykkja nýja stjórnarskrá ef af verður.

Mér finnst svolítið merkilegt að ég hjó eftir orðalagi hv. þm. Bjarna Benediktssonar. Hann sagði að það væri grundvallarstaðreynd í málinu að þessi stjórnarskrárdrög væru ótæk sem grunnur. Er það grundvallarstaðreynd? Hvernig getur hann talað með þessum hætti? Ég er algerlega annarrar skoðunar. Ég tel þetta tækan grunn, ég tel þetta mjög góðan grunn þannig að hér verða menn að gera greinarmun á grundvallarstaðreyndum og skoðunum sínum.