141. löggjafarþing — 22. fundur,  22. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[15:43]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Nú tjái ég mig um atkvæðagreiðslu sem mun ekki fara fram, þetta er mjög sérkennileg staða. [Hlátur í þingsal.]

Mig langar að rifja upp rætur þessa máls. Á sínum tíma var lagt fram frumvarp um Stjórnarráð Íslands og frumvarp um upplýsingalög. Þau frumvörp voru sögð byggja á fjórum skýrslum sem lagðar voru fram í kjölfar hrunsins. Sérstaklega var tekið fram í öllum þessum skýrslum að mikilvægt væri að skrá fundi þannig að rekjanleiki ákvarðana, þar á meðal á ríkisstjórnarfundum, væri á hreinu. Þegar þessi frumvörp komu inn í þingið voru þau greinilega skrifuð til að komast fram hjá niðurstöðum þessara skýrslna, þar á meðal ákvæði um ritun fundargerða ríkisstjórnarfunda. Ekki náðist í gegn breyting á því þannig að hljóðritunarákvæði kom inn í staðinn sem nokkurs konar sáttainnlegg í málið. Nú er búið að hafna því sáttainnleggi. Mér sárnar það að núverandi ríkisstjórn skuli fara fram með þessum hætti og hafna því að rekjanleiki ákvarðana á ríkisstjórnarfundum verði til staðar. (BirgJ: Heyr, heyr!)