141. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2012.

skólatannlækningar.

156. mál
[16:15]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur beint til mín fyrirspurn um hvort ég telji koma til greina að hefja skólatannlækningar að nýju á Íslandi.

Eins og kunnugt er, og eins og hv. þingmaður rakti, voru hefðbundnar skólatannlækningar stundaðar hér um árabil allt frá árinu 1922. Starfsemin var hins vegar orðin mjög lítil undir lokin og takmörkuð við Reykjavík. Síðustu skólatannlæknastofunum, sem þá voru fjórar, var lokað vorið 2002. Hafði þá um nokkurt skeið verið ljóst að grundvöllur fyrir rekstri hins opinbera á tannlæknastofum í grunnskólum væri brostinn, bæði vegna þess að skólayfirvöld á flestum þeim stöðum þar sem skólatannlækningar voru starfræktar höfðu óskað þess að fá yfirráð yfir húsnæði því sem starfsemin hafði yfir að ráða og vegna úrskurðar Samkeppnisráðs.

Í úrskurði Samkeppnisráðs nr. 1/1996, sem birtur var 16. febrúar 1996, kom fram að rekstur Skólatannlækninga Reykjavíkur væri ekki í samræmi við samkeppnislög í eftirtöldum atriðum:

1. Gjaldskráin væri 20% undir samningi Tannlæknafélagsins og Tryggingastofnunar án þess að sýnt væri fram á það með aðskildum fjárhag að reksturinn stæði undir sér.

2. Að sérstök kynning á þjónustu Skólatannlækninga færi fram, sem einkatannlæknar ættu ekki kost á.

3. Að greiðslur fyrir skólatannlækningar miðuðust ekki við staðgreiðslu.

Aðsókn til skólatannlækna í Reykjavík hafði auk þess minnkað þrátt fyrir að greiðslur forráðamanna barna fyrir þjónustu þeirra væru lægri en til einkatannlækna. Foreldrar barna vildu fylgja börnum sínum til tannlækna og fá þar nauðsynlegar upplýsingar og fræðslu um tannheilsu barns síns. Niðurgreiddar skólatannlækningar stóðu aðeins fáum til boða og fjölskyldum skólabarna var í raun mismunað því að skólatannlækningar voru þá aðeins starfræktar í Reykjavík og aðeins í fáum skólum. Skólatannlækningar sem slíkar með tannlæknastofur staðsettar í grunnskólum eru því ef til vill barn síns tíma.

Ég tel hins vegar mjög brýnt að koma á skipulegri tannheilbrigðisþjónustu og eftirliti með tannheilsu barna á öllum aldri, ekki einungis grunnskólabarna. Ég hef lagt áherslu á að börnum verði tryggð nauðsynleg tannlæknaþjónusta og þann 1. júlí síðastliðinn var gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands vegna almennra tannlækninga barna hækkuð um 50% til þess að auka endurgreiðslu til forráðamanna barna. Ekki reyndist unnt að hækka endurgreiðslu til örorku- og ellilífeyrisþega vegna tannlæknakostnaðar þeirra en áhersla var lögð á börnin að þessu sinni.

Nýlega skilaði starfshópur sem ég skipaði í vor tillögum um framtíðarfyrirkomulag um tannlækningar barna sem gert er ráð fyrir að hefjast megi á næsta ári. Starfshópurinn lagði fram tillögu að því hvernig hægt væri að innleiða tannheilbrigðiskerfi fyrir öll börn til 18 ára í skrefum í ljósi takmarkaðra fjármuna á næstu árum.

Tillaga hópsins er að samið verði við tannlækna um fasta gjaldskrá fyrir öll börn. Sjúkratryggð börn yngri en 18 ára skuli hafa heimilistannlækni sem annast allar almennar tannlækningar þeirra. Heimilistannlæknir skal kalla þau börn inn til reglulegs eftirlits sem skráð eru hjá honum.

Í þessum tillögum er því lýst að fyrsti áfangi mundi ná til barna frá 18 ára aldri og niður að þeim aldri sem fjárveitingar nægja til auk þriggja ára barna. Þetta gæti orðið 12–18 ára og þriggja ára í byrjun og síðan mundi þetta aukast. Aðrir árgangar yrðu teknir í áföngum þar til öll börn væru innan hins nýja kerfis.

Þetta fer að sjálfsögðu eftir því um hvað semst og hvernig fjárveitingar endast og hvort við náum að setja aukinn pening í þetta í fjárlögum. Það eru því ótal fyrirvarar að þessu en það er gríðarlega mikið í húfi að við reynum að ná samningum við tannlækna því að nú eru liðin 11 ár samfellt sem engir samningar hafa verið í gildi og þess vegna er sú endurgreiðsla sem greidd er á hverjum tíma misjöfn í prósentum eftir því til hvaða tannlæknis er leitað.

Við gerum sem sagt ráð fyrir að reyna að komast út úr þessum vítahring. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni að auðvitað á tannheilsa að vera eins og hver önnur heilbrigðisþjónusta.

Varðandi kostnaðinn við að koma skólatannlækningum á að nýju er gert ráð fyrir að fullbúnar tannlæknastofur verði settar upp í helmingi grunnskóla landsins, það er í 87 grunnskólum. Þá má gera ráð fyrir að stofnkostnaður geti numið allt að 2,6 milljörðum króna. Þá má gera ráð fyrir 2,8 milljörðum króna í árlegum rekstrarkostnaði. Einnig mætti hugsa sér að staðsetja opinberar tannlæknastofur í tengslum við aðalstöðvar heilsugæslu sem eru 60 á landinu. Þá yrði stofnkostnaðurinn minni eða 1,8 milljarðar kr.

Það er sem sagt um að ræða verulegan kostnað við að hverfa til baka til skólatannlækninga þó að taka verði undir það að skólahjúkrunarfræðingar (Forseti hringir.) og þeir sem vinna í grunnskólunum á vegum opinberra heilbrigðisyfirvalda geti breytt miklu varðandi það hverjir sækja tannlæknaþjónustu á hverjum tíma.