141. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2012.

niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrármál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:16]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Nú þegar hin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla er að baki er komið að Alþingi að taka næstu skref í stjórnarskrármálinu. Það skiptir máli að litið sé á þessa atkvæðagreiðslu í heild hvað þátttöku almennings varðar og svör við einstökum spurningum. Ekki verður horft fram hjá því að niðurstaðan er ekki sú að tillaga stjórnlagaráðs verði óbreytt að nýrri stjórnarskrá hér í landi. Fyrir því eru nokkrar ástæður.

Í fyrsta lagi greiddi tæpur helmingur kosningabærra manna atkvæði á laugardaginn var og af þeim var meiri hluti þeirrar skoðunar að tillagan væri grundvöllur að frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár, en öllum má jafnframt vera ljóst að málsmeðferð í þinginu var öll eftir.

Í öðru lagi sögðu forustumenn ríkisstjórnarinnar í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar að ef niðurstaðan yrði þessi ætti málið að fá efnislega umræðu sem auðvitað þýðir að breytingar eru fyrirsjáanlegar.

Í þriðja lagi: Vilji menn átta sig á vilja kjósenda í þessu máli verður því að horfa á atkvæðagreiðsluna í heild; hve margir tóku þátt í henni, hve margir sátu heima af einhverjum ástæðum og hvernig atkvæði féllu.

Í fjórða lagi er það ágalli á þessari atkvæðagreiðslu að ekki er hægt að sjá samhengi milli einstakra spurninga og svara. Það virðist blasa við að margir þeirra sem sögðu nei við fyrstu spurningunni sögðu já við auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Þeir vildu sem sagt slíkar breytingar á stjórnarskránni þótt þeir höfnuðu tillögum stjórnlagaráðs.

Af þessu leiðir að á engan hátt er hægt að halda því fram að þessi niðurstaða hafi bundið hendur Alþingis þannig að ekki megi gera breytingar á tillögunum. Alþingi ber ábyrgð á breytingum á stjórnarskrá og eru alþingismenn bundnir af eigin sannfæringu í því grundvallarverkefni þingsins.

Hins vegar má ráða af niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar að vilji stendur til breytinga á stjórnarskránni. Það er ágætt að fá það fram nú í upphafi þess að Alþingi tekur málið til meðferðar.

Það er afstaða Sjálfstæðisflokksins að ekki komi annað til greina en að fara rækilega yfir það frumvarp sem lagt verður fram og gera á því þær breytingar sem nauðsynlegar eru. Við munum á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggja okkur fram um að koma með efnislegar tillögur og vinna að þessu máli eins vel og okkur er kostur.

Hæstv. forseti. Að störfum er nefnd sérfræðinga að fara yfir tillögur stjórnlagaráðs. Það er brýnt að sú nefnd fái þann tíma sem hún þarf til að vinna málið rækilega. Það er engin ástæða til að reka svo á eftir þeirri nefnd að hún geti ekki sinnt verkefninu á þann hátt sem hún vill. Ég bind vonir við störf nefndarinnar og að skýrsla hennar verði gagnlegt innlegg í vinnslu málsins. Við munum því væntanlega sjá tillögur um breytingar á næstu vikum og þá hefst einfaldlega vinna Alþingis við þetta mál.

Við sjálfstæðismenn höfum margoft kallað eftir því að meira kapp verði lagt á efni breytinga á stjórnarskrá en á formbreytingar. Nú er komið að þinginu og nú reynir líka á þingið að vandað verði til verka. Þegar liggja fyrir varnaðarorð færustu sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar og á þau ber að hlusta. Það kemur ekki til greina að setja svo stífan tímaramma á þetta verk að málið verði unnið í tímahraki á elleftu stundu. Við munum áfram kalla eftir leiðsögn fróðra manna og gera allt sem hægt er til að vinna málið sem best.

Ég tel afar brýnt, frú forseti, að aðkoma allra flokka hér á Alþingi verði tryggð í framhaldi málsins og að menn hlusti á ólík sjónarmið og leggi sig fram við að ná samstöðu, að minnsta kosti um tiltekna þætti þessa máls. Við vitum öll sem hér erum inni að það er vel hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ég get tekið auðlindaákvæðið sem dæmi. Það er ágreiningslaust af hálfu Sjálfstæðisflokks að auðlindaákvæðið sé fært í stjórnarskrá, en við þurfum hins vegar að komast að niðurstöðu um orðalag, það er verkefni okkar að gera það.

Ég get líka tekið dæmi um embætti forseta Íslands sem ég tel brýnt fyrir okkur að ræða rækilega hér, staða þjóðkirkjunnar, krafan um þjóðaratkvæðagreiðslur og slíkir þættir. Þetta eru mikilvæg atriði sem ná þarf samstöðu um. Það er ekki hægt að setja málið í átakabúning enn og aftur hér í þinginu.

Ég vil því, frú forseti, enn og aftur ítreka vilja okkar sjálfstæðismanna til að leggja okkar af mörkum í þessu máli og jafnframt það hve miklu það skiptir fyrir okkur Íslendinga að sæmileg samstaða náist um breytingar á stjórnarskránni. Það er eðlilegt að það taki ákveðinn tíma að ná slíku fram og það er hreinlega hollt og gott að þetta grundvallarmál fái að þroskast. Stjórnarskrá er ekki bara grundvallarplagg hverrar þjóðar, heldur er hún líka lög sem borgararnir reiða sig á að farið verði eftir. Það er hafið yfir allan vafa að það er langfarsælast fyrir þjóðina að málefni stjórnarskrár sé unnið í sátt og fyrir því munum við sjálfstæðismenn tala á þinginu í vetur.