141. löggjafarþing — 27. fundur,  25. okt. 2012.

Stjórnarráð Íslands.

248. mál
[13:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í upphafi vil ég segja að ríkisstjórnin ber fulla ábyrgð á þessu máli, að hafa látið undan þrýstingi að setja inn í lög um Stjórnarráð Íslands heimild fyrir því að ríkisstjórnarfundir skyldu verða teknir upp, hljóðritaðir með öðrum orðum. Hér er verið að reyna að breiða yfir þau mistök. Það er búið að fresta einu sinni gildistökuákvæði og nú eiga þessi lög að taka gildi 1. nóvember.

Ég er með breytingartillögur sem lúta að því að það frumvarp sem er hér til umræðu falli niður í ljósi þess að aðalbreytingartillaga mín gengur út á það að 4. mgr. 7. gr. laga um Stjórnarráðið falli niður, þannig að ekki verði heimilt að taka upp ríkisstjórnarfundi. Ég kem því til með að greiða atkvæði með þeim breytingartillögum sem liggja hér fyrir á þessu þingskjali en mun sitja hjá við aðrar tillögur.