141. löggjafarþing — 29. fundur,  5. nóv. 2012.

innflutningur á lifandi dýrum, hráu kjöti og plöntum.

[15:24]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Samningsafstaðan um 12. kafla, matvælaheilbrigðiskaflann. Mikil vinna hefur verið lögð í að móta samningsstöðuna og þar á meðal og ekki síst í að undirbyggja eins öflugan rökstuðning og mögulegt er, faglegan og sögulegan rökstuðning, fyrir því að Ísland þurfi áfram að geta viðhaft bann við innflutningi á lifandi dýrum, á hráu kjöti og öðru hrámeti sem gæti falið í sér hættur, í allmörgum tilvikum í plöntuheilbrigðismálum sem snúa bæði að tegundahættu og smithættu og loks verður farið fram á það að við viðhöldum þeim undanþágum sem við höfum nú varðandi innleiðingu á sviði EES-reglna í einum þremur tilvikum.

Ég leyfi mér að fullyrða að reifaðar eru og lagðar fram rökstuddar og undirbyggðar allar þær meginkröfur sem menn hafa talið mikilvægar fyrir Ísland á þessu sviði. Mér hefur ekki verið bent á að þar vanti upp á. Farið er fram á það í grófum dráttum að Ísland viðhaldi stöðu sinni hvað varðar að þurfa ekki að leyfa hér innflutning á lifandi dýrum, hráu kjöti og hráum eggjum og öðru slíku, að við getum viðhaft sömu undanþágur og takmarkanir varðandi plöntuheilbrigði og að við viðhöldum núverandi stöðu að því marki sem hún er þegar í EES-samningnum. Með öðrum orðum, öllum grundvallarhagsmunum Íslands er þarna haldið til haga og þeir eru rækilega rökstuddir á mörgum blaðsíðum sem fjöldi sérfræðinga hefur lagt hönd á plóginn með og farið er fram á að við getum í samningum viðhaldið okkar stöðu í þessum efnum. Þar er öllu til haga haldið og ég veit ekki til þess að menn hafi fundið neitt sem upp á vantar. Ef svo væri tökum við ábendingum með þökkum.

Spurningin um orðalag er annað mál. Hvernig orðum við þau samningsmarkmið sem við setjum fram og rökstyðjum og ætlum okkur að ná fram? Mér finnst menn missa svolítið sjónar á því að það sem skiptir að lokum (Forseti hringir.) máli, ef menn fara í samningaviðræður af þessu tagi, er niðurstaðan, þ.e. hverju menn ná fram, en ekki skylmingar um það hvernig þær kröfur eru orðaðar fyrir fram. (Gripið fram í.)