141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september.

[14:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum flest sammála um hver viðbrögðin þurfa að vera við hörmungum eins og þeim sem þarna áttu sér stað. Ég vil þó segja að yfirskrift þessarar umræðu um afleiðingar þessa veðurs er að sjálfsögðu það sem mestu skiptir. Afleiðingarnar eru vitanlega bæði fjárhagslegar og tilfinningalegar. Því þarf ríkisvaldið að ganga fram fyrir skjöldu til að gefa í það minnsta til kynna, og standa svo við það, að reynt verði að sjá til þess að bændur þurfi ekki að bregða búi vegna þessara hörmunga og að bætt verði verulega úr.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi ekki vel til greina að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að bændur muni ekki þurfa að bregða búi vegna þessara hörmunga, og hvort ekki verði farið af fullum krafti í að bæta þann tæknilega vanbúnað sem þarna kom í ljós og fara yfir viðbrögð yfir áföllum sem þessum. Ég hygg að því sé auðsvarað og að það verði að sjálfsögðu gert.

Við þurfum að sjálfsögðu að spyrja okkur: Er ásættanlegt að árið 2012 séum við tæknilega vanbúin til að bregðast við áföllum sem þessum, þ.e. að rafmagn geti farið af helstu fjarskiptatækjum okkar? Nei, það er ekki ásættanlegt. Við hljótum að þurfa að setjast yfir það hvernig best er að standa að slíku. Hér á eftir mun fara fram önnur sérstök umræða um fjarskiptasjóð og er aldrei að vita nema þetta komi þar einnig fram.

Mikilvægt er að átta sig strax á að umfangið eins og fram kom er meira en fyrst var talið. Því má engum dyrum loka fyrr en búið er að fullmeta áfallið og tjónið sem kann að hafa orðið og samræma viðbrögð og mat á því tjóni og um leið hvernig bæta eigi úr því.