141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lúðvík Geirssyni fyrir framsögu hans. Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða. Við erum að beita þessum nýju lögum um rannsóknarnefndir Alþingis í þriðja sinn. Það er verið að leggja lokahönd á tvær rannsóknir samkvæmt þeim lögum, um Íbúðalánasjóð og sparisjóðina. Það er mikilvægt að við drögum lærdóm af því hvernig það ferli hefur gengið.

Hv. þingmaður nefndi, hefur gert það ítrekað í svörum við andsvörum, að það er greinilegt að rannsóknir af þessu tagi geta tekið lengri tíma en við gerðum ráð fyrir í upphafi, þá einkum og sér í lagi kannski undirbúningurinn að þessum rannsóknum hvað varðar umfang fjárveitinga, mannafla og þess háttar.

Hv. þingmaður sagði að ljóst væri að ekki væri hægt að fara í þessa rannsókn fyrr en eftir áramót og þá langar mig að biðja hann að gera okkur aðeins betur grein fyrir því hvað hann er að hugsa í þeim (Forseti hringir.) efnum.