141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[17:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir góða yfirferð yfir auðlindir þótt hann hafi kannski takmarkað sig dálítið við sjávarútveg. Það var mjög athyglisvert sem hann sagði, að þegar fólk notar mannauðinn til þess að bæta auðlindina þannig að hún verði miklu verðmætari þá segir auðlindarentan í rauninni að taka eigi það af mönnum þar sem mannauðurinn er notaður sem fjárfesting til að bæta auðlindina. Ég benti á áðan í andsvari mínu að það væri engin auðlind án mannauðs. Fallvötnin væru ekki virkjuð. Sjávarútvegurinn kostaði enn mannslíf eins og hann gerði og án mannauðs gæti hann ekki veitt nema til hálfs við það sem hann gerir í dag. Það eru akkúrat verkfræðingar, tæknifræðingar, markaðsmenn og aðrir slíkir sem hafa gert sjávarútveginn að auðlind.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hver er hlutur takmörkunarinnar? Um leið og aðgangur er takmarkaður að einhverju af illri nauðsyn, t.d. rafsegulbylgjum, ef þú mundir ekki takmarka eða skipuleggja aðganginn að þeim færi það allt saman í eina kássu. Og ef ekki hefði verið takmarkaður aðgangur að sjávarútveginum hefði hann sennilega klárað þorskinn með öllum þessum mannauði og við sætum uppi án auðlindar.

Það er spurning hvort sá aðili sem takmarkar, þ.e. ríkið, sé ekki á vissan hátt eigandi þeirrar rentu sem myndast vegna takmörkunarinnar.

Ég mjög hlynntur því sem hv. þingmaður sagði um að mjög margir taki sér orðið þjóð í munn til þess að sölsa undir ríkið alls konar gæði. Þeir nota sem sagt þjóðina til þess að sölsa undir ríkið sem þeir sjálfir stjórna.