141. löggjafarþing — 32. fundur,  8. nóv. 2012.

tillögur ungra sjálfstæðismanna um aðgerðir í ríkisfjármálum.

[10:57]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir þessi svör. Ég verð var við það að það fer eitthvað fyrir brjóstið á mörgum sjálfstæðismönnum í þessum sal að vakin sé athygli á þeim hugmyndum og þeim hugmyndafræðilega grunni sem er að gerjast í samtökum þeirra. (Gripið fram í.) Mér finnst hins vegar mikilvægt að þessu sé haldið til haga vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað mjög mikinn niðurskurð í framlögum til hins opinbera, eins og hæstv. ráðherra sagði. Þó að það sé ekki nákvæmlega í takt við það sem hér er lagt til er það sú stefna sem þessi flokkur vill bersýnilega fara, á hraðferð til hægri, og mér finnst mikilvægt að draga það fram á þessum vetri.

Mér finnst líka mikilvægt að í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra koma fram aðrar áherslur sem byggja á samfélagi jöfnuðar og réttlætis og það finnst mér skipta mjög miklu máli varðandi framhald málsins og þann málflutning sem hæstv. fjármálaráðherra vill halda á lofti. (Gripið fram í.)