141. löggjafarþing — 33. fundur,  13. nóv. 2012.

fjáraukalög 2012.

153. mál
[14:54]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ef ég er á réttum stað í þessari atkvæðagreiðslu erum við að greiða atkvæði um sundurliðun 1 sem er tekjuhliðin, breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar á tekjuáætlun ríkisins fyrir yfirstandandi ár. Niðurstaðan þar er hækkun tekna upp á rúma 6 milljarða sem bætast við rúmlega 10,5 milljarða í frumvarpinu sjálfu. Þetta er til marks um það að tekjuhlið ríkisins er að styrkjast vegna batans í hagkerfinu. Þetta hrekur þá spádóma sem ýmsir voru með, að tekjuöflunaraðgerðirnar mundu ekki ná tilætluðum árangri og þær tekjuöflunaraðgerðir sem menn hafa staðið í undanfarin ár mundu þar af leiðandi ekki skila sínu. Þær gera það eins og við sjáum mjög skýrt á því að nú er hægt að hækka áætlunina um tekjur ríkissjóðs á yfirstandandi ári um nálægt 17 milljörðum kr., ef ég legg rétt saman. Þetta segir meira en mörg orð sem voru látin falla hér á undan.