141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[15:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Það má kannski segja að dálítið seint sé í rassinn gripið fyrir ríkisstjórnina að koma og ræða það núna en betra er seint en aldrei. Ég vil túlka ræðu þingmannsins sem ákall til ráðherra sinna um að gera betur á síðustu mánuðum kjörtímabilsins en gert hefur verið.

Um langt skeið má halda því fram, og ég tek undir með hv. málshefjanda, að hér á landi hefur ekki verið nein skilvirk byggðastefna. Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar, var með mjög gott erindi á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna þar sem hann sýndi fram á að sú byggðastefna sem verið hefur um 150 ára skeið hefur verið mjög góð fyrir þá byggð sem hún þjónar og skilað mjög miklum árangri, þ.e. að byggja upp höfuðborgina og færa allar stofnanir ríkisins þangað. En nú er kominn tími á nýja byggðastefnu sem horfir til annarra átta. Eins og hæstv. ráðherra minntist á má segja að á landinu séu margar landsbyggðir með mismunandi aðstöðu.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að rétt sé að skoða meðal annars norsku leiðina, við höfum talað fyrir því að stækka þurfi atvinnusvæðin til að bregðast við ýmsum áföllum sem verða í minni byggðum. Við höfum talað um að styrkja innviði á landinu öllu, til að mynda fjarskipti, samgöngumál, jöfnun raforku og húshitunar, við mæltum fyrir þingsályktunartillögu um það í gær, og flutningskostnað svo eitthvað sé nefnt. Við höfum einnig talað fyrir því að taka þurfi upp sértækar lausnir í atvinnumálum sem tengjast sóknarfærum hvers svæðis fyrir sig og jafnframt að skoða sértækar lausnir í menntunarmálum þeirra svæða sem oft eiga erfitt með að standast samkeppnina um menntun ungs fólks. Við höfum staðið í því að verja heilbrigðiskerfið og aðra grunnþjónustu á kjörtímabilinu fyrir niðurskurði. Fyrir þessum atriðum höfum við framsóknarmenn barist allt kjörtímabilið.

Ég vil enda ræðu mína á að taka undir það ákall sem kom fram hjá hv. þm. Birnu Lárusdóttur að nú er mál að linni. Við skulum (Forseti hringir.) hætta að tala, taka höndum saman og leysa þessi mál.