141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

byggðamál.

[16:04]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra að samgöngur skipta gríðarlega miklu máli til að efla svæði, stytta leiðir og byggja undir. Góð dæmi um það eru þau sem voru nefnd hérna áðan, þ.e. nýr Herjólfur, Landeyjahöfn, hvernig samgöngustaða Vestmannaeyja gagnvart fastalandinu tók stakkaskiptum, breytti öllu fyrir þessa byggð. Menntun, framhaldsskólar og aðgengi að háskólanámi um fjarnám eru allt byggðamál sem er hægt að segja að séu mikilvægasta byggðastefnan þegar allt er samandregið.

Hitt er að halda utan um svæðin sem Byggðastofnun skilgreindi réttilega sem svæði sem ekki hefur verið tekin nein sérstök ákvörðun um að eigi að lifa af og þar muni því byggð leggjast af. Dæmi um þetta eru Raufarhöfn, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Þetta er viðfang stjórnmálanna akkúrat núna. 14% fækkun íbúa á tíu árum, eins og í Skaftárhreppi, er vísbending um að byggðin leggist af ef ekki verður brugðist við strax.

Þess vegna ber að fagna sérstaklega ákvörðun um 250 milljónir í fyrsta áfanga þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri nú á fjárlögum fyrir 2. umr. út frá fjárfestingaráætluninni. Þetta er dæmi um ákvörðun sem verður að taka á pólitískum forsendum af fjárveitingavaldinu eigi byggð sem er í jafnalvarlegri tilvistarkreppu og þær sem ég taldi upp áðan að eiga sér viðreisnar von, hvað þá að lifa af. Það mætti nefna mörg dæmi af ágætlega heppnaðri byggðastefnu víða um land, en svæði hafa orðið eftir og út undan. Þau hafa verið mjög vel skilgreind af Byggðastofnun og fleiri aðilum, eins og nefnt hefur verið í umræðunni hérna í dag. Það er okkar að taka ákvarðanir um uppbyggingu á svæðunum þannig að þau fái viðspyrnu, lifi af og byggðin byrji að braggast þar aftur. Sú ákvörðun sem ég nefndi hérna áðan er dæmi um það. Við þurfum að taka aðrar og fleiri slíkar og láta vita af því í markvissri áætlun (Forseti hringir.) um uppbyggingu þessara byggða.