141. löggjafarþing — 34. fundur,  14. nóv. 2012.

sjúkratryggingar.

303. mál
[16:52]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður segir að sveitarfélögin hafi ekki verið sátt við yfirfærsluna og ekki hafi alls staðar verið vandað til verka. Nú veit ég ekki hvað hann á við. Varðandi málefna fatlaðs fólks held ég að almennt séð hafi sveitarfélögin og þeir sem hafa notið þjónustunnar verið mjög ánægðir með yfirfærsluna. Þótt það hafi komið upp ágreiningur um einstaka þætti er skýr farvegur fyrir það. Það sem er ólíkt því sem gert var á sínum tíma þegar grunnskólinn var færður yfir er að núna er sett inn að árið 2014 skuli meta árangurinn af yfirfærslunni, fara yfir fjárhagslega útkomu, þróun þjónustunnar og svo framvegis.

Það er nákvæmlega þess vegna sem við höfum seinkað því að færa málefni aldraðra yfir. Þess vegna erum við að tala um tvö ár, við ætlum að bíða og sjá hver niðurstaðan verður á sama tíma og við munum vinna af fullum krafti við að undirbúa yfirfærslu á málefnum aldraðra. Samtímis verðum við að gera okkur grein fyrir því að það verður erfitt að skilja á milli heilsugæslu og öldrunarþjónustu hjá einstaka stofnunum úti á landi. Víða er þessi þjónusta á hendi einnar stofnunar og þá verður hugsanlega að vera valkvætt hversu stór hluti er fluttur yfir.

Það eru auðvitað fordæmi fyrir því að sveitarfélög reki heildstæða þjónustu eins og til dæmis á Höfn í Hornafirði og víðar. Það er í sjálfu sér enginn ágreiningur um að það eigi að meta kostnað og vinna nákvæmar úttektir um það hver afköstin eru í heilbrigðiskerfinu og við munum halda þeirri vinnu áfram algjörlega óháð þessu. Við getum svo farið að taka inn einstaka þætti með þessari reglugerðarbreytingu til að starfsfólk sjúkratrygginga sé undir það búið að geta farið að þróa ákveðna vinnu í framhaldinu.

Þetta er hugmyndafræðin hér á bak við og ég held að ég deili því með hv. þingmanni að það er ánægjulegt að heyra að þverpólitísk samstaða hefur verið um meginþætti heilbrigðiskerfisins. Þannig (Forseti hringir.) þarf það auðvitað að vera áfram. Það skiptir okkur miklu máli.