141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[16:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekkert að útiloka að ég styðji þá breytingu sem hv. þm. Þór Saari nefnir, en það sem ég mundi gjarnan vilja sjá er að við tækjum umræðu um beina lýðræðið og hvernig við teljum það best tryggt. Ég hef sjálf verið talsmaður atkvæðagreiðslna en eins og hér kom fram er ég ávallt reiðubúin að endurskoða afstöðu mína í málum. Að sumu leyti held ég að eitt það mikilvægasta sem hægt er að gera í lýðræðismálum sé að almenningur og þingmenn líka fái aðkomu fyrr að málum áður en þau fara beint í atkvæðagreiðslu.

Það sem ég held að skipti miklu máli að við ræðum í þinginu er ekki aðeins ákvæði um beint lýðræði í gegnum atkvæðagreiðslur, þar sem maður segir já eða nei við fyrir fram gefnum valkostum, heldur að við ræðum það í fúlustu alvöru hvernig við getum tryggt lýðræðislega aðkomu borgaranna á fyrri stigum. Það er að minnsta kosti mín skoðun, og mótast kannski eftir því sem maður kynnist stjórnkerfinu betur, að það mikilvægasta sem hægt er að gera í lýðræðismálum sé að efla þetta samráð (Forseti hringir.) á fyrri stigum, til að mynda að einhverju leyti við samningu lagafrumvarpa. Ég tel að ákveðnar bragarbætur hafi þar verið gerðar á, en það mætti líka gera í (Forseti hringir.) öðrum framkvæmdamálum.