141. löggjafarþing — 39. fundur,  21. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[19:29]
Horfa

Íris Róbertsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin og ég heyri að hún tekur undir þetta, eins og ég veit að allir gera hér. Við viljum öll vandaða lagasetningu. Ég er ekki að segja að þetta verði notað og tvær umferðir verði reglan, en þetta opnar kannski á ákveðna hættu á því að hægt verði að klippa fjölda umræðna niður í tvær.

Ég þekki hv. þingmann að góðu einu. Við erum báðar Vestmannaeyingar og varamenn hér á þingi og ég veit að engum dettur til hugar að ákveða fyrir fram að fækka umræðum í tvær í öllum erfiðum málum, en það getur verið freistandi að sleppa einni umferð ef þingið er komið í tímaþröng. Það er því ástæða til að benda á þetta og sérfræðinefndin gerir það líka og telur að það auki ekki líkurnar á vandaðri lagasetningu á þingi ef umræðum verður fækkað.