141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ágæta og málefnalega ræðu. Ég sakna þess dálítið að stjórnarandstæðingar — ég veit ekki hvort ég á að telja hann með í þeim hópi — komi í pontu og ræði við okkur efnislega þannig að hin ýmsu sjónarmið komi fram og hægt sé að fá svör við spurningum.

Ég hef alla tíð barist fyrir jöfnu vægi atkvæðisréttar og því að landið verði eitt kjördæmi. Ég var reyndar ánægður þegar misvægið minnkaði úr því að vera 1:4 í það að vera 1:2 en vildi gjarnan ganga lengra. Ég sé ekki nema eina lausn á því ef hún á að vera rökfræðilega skotheld, þ.e. að landið verði eitt kjördæmi. Um leið og búið er að skipta því niður í fleiri kjördæmi myndast þröskuldar til að komast inn og þeir eru reyndar líka til þó að landið sé eitt kjördæmi, það er engu að síður 1:63. Þegar landið er eitt kjördæmi myndast sterkt flokksræði af því að þá er alltaf einn þingmaður efstur í þessu eina kjördæmi í hverjum flokki. Hvernig sér hv. þingmaður að hægt sé að laga það?

Svo vildi ég spyrja hann út í það sem stendur um jafnt vægi kynjanna í framboði, hlutfall karla og kvenna. Um leið og maður kemur með einhverja reglu um jafnt vægi kynjanna brýtur maður hina regluna um jafnt vægi atkvæða vegna þess að einhver kona eða karl fer fram fyrir annan þó að hún eða hann sé með lægra atkvæðamagn. Öll svona jaðarskilyrði skemma hugmyndina um jafnt vægi atkvæða.

Svo langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi hlustað á mig tala um sameiginlegt prófkjör allra flokka í gær. Ég sé það fyrir mér sem ákveðið persónukjör fyrir kosningar. Svo væri mjög gaman að tala við hv. þingmann um Lögréttu.