141. löggjafarþing — 40. fundur,  22. nóv. 2012.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[15:49]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um sveitarstjórnirnar. Mér finnst það góð hugmynd að svæðisstjórnir sveitarfélaga fái aukið vægi. Það hefur sýnt sig undanfarin ár að svæðisstjórnir sveitarfélaga hafa unnið mjög vel saman að hagsmunum sveitarfélaga. Ég leyfi mér að minna á Suðurkjördæmi, kjördæmi þingmannsins, þar sem allar sveitarstjórnirnar sameinuðust nýverið um að verkefni á Kirkjubæjarklaustri varðandi hús ætti að vera forgangsmál allra sveitarfélaga á svæðinu. Það er merki um að sveitarstjórnir eru farnar að skilja betur hvaða vægi þær hafa þegar þær vinna saman. Ég held að það verði framhald á þessu. Það þarf ekkert miklu lengri tíma, það þarf einfaldlega að hugsa um útfærsluna á þeim atriðum í frumvarpinu í meðförum þess í þinginu.

Hvað persónukjörið varðar hefur persónukjörsfrumvarp komið tvisvar sinnum fyrir þingið. Allsherjarnefnd fjallaði um það mjög rækilega í bæði skiptin og nánast allar breyturnar í því máli eru þekktar. Þegar kemur að því að setja kosningalöggjöf í framhaldi af nýrri stjórnarskrá verður það mál að sjálfsögðu skoðað rækilega. En að hafa persónukjör í stjórnarskránni á þessu stigi kallar ekki á neinn lengri undirbúning.

Hvað varðar sölu auðlinda jafngildir nýtingin á jarðhitanum hjá HS Orku til alls þess tíma sem hún á að vera nánast því að fyrirtækið eigi auðlindina. Það er hlutur sem við verðum að fara mjög varlega með, einmitt í framhaldi af auðlindaákvæðinu, að leigan á auðlindunum verði ekki til svo langs tíma að það megi líta á þær sem hreina eign. Það þarf að stíga mjög varlega til jarðar þar.

Hvað varðar lengri tíma fyrir frumvarpið í heild hafa breytingar á stjórnarskrá verið ræddar í bráðum 70 ár. Þetta plagg byggir á tillögum sem menn hafa rætt í þaula undanfarna áratugi og það er í raun ekki mjög margt spánnýtt hér sem þarf miklu lengri umræðu.