141. löggjafarþing — 41. fundur,  23. nóv. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:27]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ræðuna og fyrir að vera sá talsmaður grænna sjónarmiða sem hann er. Satt best að segja hef ég við umræðurnar hér í dag verið að hugsa að líklega hefur Alþingi aldrei átt jafnmarga fulltrúa grænna sjónarmiða og nú. Það helst kannski í hendur við þá staðreynd að tíminn vinnur með náttúrunni og með náttúruverndarsjónarmiðum. Ef við værum að ræða þessa sömu áætlun eftir fimm eða sjö eða tíu ár hygg ég að það yrðu enn fleiri, miklu fleiri jafnvel, sem töluðu grænu máli.

Verkefnið er að mínu mati að þessi grænu sjónarmið framtíðarinnar vinni sér sess innan allra flokka. Það er mikilvægt að hafa í huga að í skoðanakönnunum hefur ítrekað komið fram að kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru miklu grænni en kannski hljómar í hinni opinberu umræðu af hálfu forustufólks hans og það er umhugsunarefni fyrir þá sem í hlut eiga.

Það sem mig langaði hins vegar að spyrja hv. þingmann sérstaklega að er þetta með sáttina. Það hefur komið fram, meðal annars hjá fulltrúum í verkefnisstjórn og formönnum faghópa, að langflestir hafi gert ráð fyrir því í upphafi vinnunnar að biðflokkur yrði mjög stór vegna þess að það vantaði svo mikið af gögnum og rannsóknum. Ef þetta er langtímaverkefni er hv. þingmaður sammála því grunnsjónarmiði að sem langtímaverkefni sé það einmitt sáttin, að sáttin felist í því að ef veigamiklar upplýsingar vantar hljóti allt að fara í bið og sé þess vegna (Forseti hringir.) áframhaldandi lifandi verkefni inn í framtíðina? Og þannig sé líka tryggt að aðrir en bara þeir sem standa hér og nú, (Forseti hringir.) að komandi kynslóðir, fái meiri þátttöku í ákvörðunartökunni sem slíkri?