141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

siglingar Baldurs til Vestmannaeyja.

[10:42]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar að beina orðum mínum til hæstv. innanríkisráðherra í tilefni af nýtekinni ákvörðun um að taka Breiðafjarðarferjuna Baldur, það skip sem hefur þjónað Vestfirðingum, og flytja til Vestmannaeyja til að þjóna Vestmannaeyingum eftir að ferjan Herjólfur varð fyrir skemmdum í Landeyjahöfn.

Breiðafjarðarferjan Baldur hefur áður verið tekin til að bjarga málum í Vestmannaeyjum þegar Herjólfur hefur þarfnast viðgerða, en við vitum að Herjólfur er ekki smíðaður fyrir Landeyjahöfn og að óhöpp geta þar af leiðandi orðið fleiri og tíðari á því skipi. Matvælaframleiðendur og matvælaútflytjendur á Vestfjörðum hafa gert alvarlegar athugasemdir við þetta og vakið athygli á því, sem og sveitarstjórnir, að sú ráðstöfun að flytja Baldur fyrirvaralaust og án samráðs annað um tíma hefur valdið skakkaföllum.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Eru á borðinu áætlanir um hvernig leysa beri þessi mál? Sú hætta er ævinlega til staðar að Herjólfur verði fyrir skakkaföllum. Er þá eina planið hjá samgönguyfirvöldum að grípa alltaf til þessarar einu ferju sem Vestfirðingar hafa og senda hana suður til Vestmannaeyja til að leysa málið, jafnvel með mjög litlum fyrirvara eins og gerðist núna? Þótt maður hafi skilning á vanda Vestmannaeyinga vegna bilunar Herjólfs kom þetta sér mjög illa, sérstaklega fyrir matvælaútflytjendur vestur á fjörðum. Spurningin er: Þarf ekki að gera einhverjar varanlegri ráðstafanir til að leysa mál þegar svona óhöpp verða en að svipta einn landshluta samgöngum sínum til að bæta fyrir eitthvað sem gerst hefur annars staðar?