141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég mæli fyrir áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar sem að standa hv. þingmenn Ásbjörn Óttarsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir ásamt mér. Þetta álit er að finna á þskj. 589. Í framsöguræðu formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, kom fram að hann lítur svo á að það frumvarp sem hér er á ferðinni sé tímamótafrumvarp, sem vissulega er rétt. Þetta er tímamótafrumvarp að mörgu leyti, sérstaklega að því leytinu til að þetta er síðasta fjárlagafrumvarpið sem við ræðum áður en gengið verður til kosninga á komandi vori.

Af því að ég nefni vorið má í raun ýmislegt tengja því, m.a. að á vorin ganga bændur til verka og bera á tún í von um góða uppskeru. Ég held að við getum sagt að þetta minni um margt á störf Gunnars Jónssonar, bónda á Egilsstöðum, þegar hann gengur til verka sinna og væntir góðrar uppskeru. Óneitanlega bendir margt í frumvarpinu til þess að menn séu að slaka á þeim aðhaldskröfum sem nauðsynlegar eru á þessum tíma í von um að létta af tiltekinni spennu sem óneitanlega kemur á kjörna fulltrúa í aðdraganda kosninga.

Það er rétt að í máli stjórnarliða hefur á undanförnum árum komið fram það álit að þeir hafi viljað fara hina svokölluðu blönduðu leið skattahækkana og niðurskurðar, reyna að verja grunnstoðir velferðarkerfisins og draga úr þeim sársauka sem niðurskurðurinn veldur. Ég efast ekki um góða hug stjórnarliða til þessa, en er ekki þar með að segja að ég sé að öllu leyti sammála því hvernig staðið hefur verið að þessu.

Óhjákvæmilegt var að taka á ýmsum þáttum, en við deilum í rauninni ekki um það. Við deilum heldur ekki um að við höfum öll sameiginlegt markmið um að koma böndum á viðvarandi hallarekstur ríkissjóðs. Við deilum heldur ekkert um það, stjórnarliðar eða stjórnarandstaða, að hlutverk stjórnarandstöðu er að veita meiri hluta á hverjum tíma aðhald í því sem hann er að gera. Við í stjórnarandstöðu leggjum rækt við það sem best við getum að beina uppbyggilegri gagnrýni að verkum stjórnarmeirihlutans hverju sinni.

Ég segi að þetta sé á margan hátt kosningafrumvarp eins og það liggur fyrir við 2. umr. Af frumvarpinu er ljóst að stjórnarflokkunum hefur ekki enn tekist að koma böndum á ríkisútgjöldin eða ríkisfjármálin og í nefndaráliti okkar leiðum við ágætisrök að þeirri ályktun. Hallarekstur ríkissjóðsins er of mikill, áætlanir sem gerðar hafa verið um bata í þeim efnum ganga ekki eftir og við sjáum að þær breytingartillögur sem stjórnarmeirihlutinn gerir nú fyrir 2. umr. eru órækur vitnisburður þess að slakað er á aðhaldi.

Til viðbótar leggur meiri hluti fjárlaganefndar síðan til sínar útgjaldatillögur og gerir bókstaflega allar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar að sínum en lætur síðan breytingartillögur Alþingis bíða til 3. umr. ásamt fleiri þáttum sem eftir er að taka ákvarðanir um. Við gagnrýnum þessi vinnubrögð í áliti 1. minni hluta okkar og teljum þau ekki til fyrirmyndar.

Í ljósi þess sem ég hef hér sagt ætti ekki að dyljast að ég tel meginverkefni Alþingis í vinnu við fjárlög íslenska ríkisins að eiga sem mesta samvinnu við ríkisstjórnina um endurskipulagningu á rekstri ríkissjóðs með það að markmiði fyrst og fremst að greiða niður skuldir ríkissjóðs, stækka skattstofna og auka þannig tekjur ríkissjóðs. Því miður hefur ríkisstjórnin fremur kosið að efna til átaka og standa í átökum við aðila vinnumarkaðarins og helstu útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar.

Það kom fram í andsvörum áðan við ræðu hv. formanns fjárlaganefndar að mörg brýn verkefni og kostnaðarsöm bíða úrlausnar milli 2. og 3. umr. fjárlaga. Þar hafa verið nefnd stór verkefni á borð við áform um byggingu nýs Landspítala, fjármögnun á Íbúðalánasjóði, tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu og önnur minni mál sem eru ekki síður mikilvæg en ekki jafnfjárfrek, og þá staldrar maður við löggæsluna og fleiri þætti. Við erum upplýst um að þetta bíði til 3. umr. Að því gefnu að þessum óskum verði mætt á einhvern hátt er ljóst að það markmið sem sett hefur verið um heildarjöfnuðinn mun ekki nást nema með miklum harmkvælum, ef það er þá í raun gerlegt. Að því leytinu til er þetta frumvarp vísbending um að stjórn og aðhaldsmarkmið varðandi fjárlög og fjármál ríkisins eru farin úr þeim böndum sem þeim voru mörkuð í stefnu um opinber útgjöld og aðhaldsramma á ríkisfjármálahliðinni.

Það er ekki eins og stjórnarandstaðan sé ein að kveða þennan söng. Við leyfum okkur í áliti okkar að vitna til varnaðarorða Seðlabanka Íslands sem í reglulegri útgáfu sinni á Peningamálum í nóvember gefur út álit sitt. Þar varar Seðlabankinn við auknum útgjaldaþrýstingi í aðdraganda kosninga og bendir á ýmis teikn til viðbótar sem full ástæða er til að taka alvarlega. Hann nefnir endurskoðun kjarasamninga í byrjun næsta árs og ræðir líka að í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir áformum um byggingu nýs Landspítala. Seðlabanki Íslands telur mikla óvissu ríkja um ýmsa tekjuliði og hætta sé á því að lagt verði í ýmis útgjöld. Þó svo að þeim séu eyrnamerktir ákveðnir tekjustofnar sýni sagan að þau áform eigi mjög erfitt með að líta dagsins ljós og muni tæpast rætast. Í þessu sambandi nefnir Seðlabankinn sérstaklega fyrirhugaða eignasölu ríkisins sem áður hafi verið slegið á frest en nú er búið að blása nýju lífi í hana. Loks nefnir Seðlabankinn mikla óvissu um þróun fjármagnskostnaðar hins opinbera og ég kem raunar að þeim þætti sérstaklega síðar í ræðu minni.

Samandregið má segja að Seðlabanki Íslands telji að töluverð óvissa sé um forsendur fjárlaga og álit hans er að verr muni ganga að ná jöfnuði í rekstri hins opinbera en gert sé ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í opinberum fjármálum.

Ég vil í þessu sambandi nefna sérstaklega þá umræðu sem hefur verið uppi í íslensku samfélagi síðustu vikur, og tengist raunar tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins, að miklar arðgreiðslur til bankanna geta haft áhrif á áhættu ríkissjóðs af innstæðuskuldbindingum sem ríkisstjórnin hefur ábyrgst. Þar er sérstaklega átt við sérstakt skuldabréf Landsbankans til þrotabús gamla bankans sem hefur áhrif á getu félagsins til að greiða arð. Auk þess munu arðgreiðslur til erlendra eigenda bankanna reyna á gjaldeyrisforða landsins og því er ekki eðlilegt að ríkisstjórnin gangi gegn áformum Seðlabankans að því leyti. Jafnframt er rétt að vekja athygli á því að það er mat Seðlabankans að skuldabréfið milli gamla og nýja bankans sé til of skamms tíma og þrýsti um of á gengi krónunnar.

Frá því að skrifað var undir þetta skuldabréf hefur legið fyrir að greiða þyrfti það til baka. Menn voru mjög bjartsýnir á sínum tíma þegar þessir samningar voru gerðir og skuldabréfið frágengið, samanber það sem kom fram í fréttabréfi fjármálaráðuneytisins á árinu 2009 þar sem ekki voru talin nokkur einustu vandkvæði á því að greiða af skuldabréfinu. Það álit gengur í raun gegn því áliti sem uppi er í dag og mati seðlabankastjóra á því að greiðslubyrði af þessu bréfi sé allt of þung og geti ógnað stöðugleikanum. Þessi andstæðu sjónarmið og þetta andstæða mat vekur að sjálfsögðu áhyggjur af því hversu takmarkaða sýn forustustofnanir í íslensku þjóðfélagi sem sýsla með opinber fjármál hafa til þessa mikilvæga máls.

Rétt er að geta þess líka að vöruskiptaafgangurinn fyrstu níu mánuði ársins nam tæplega 49 milljörðum kr. sem er um 40% samdráttur frá sama tíma í fyrra. Geta þjóðarbúsins til að standa í skilum í erlendum gjaldeyri mun að óbreyttu fara minnkandi. Jafnframt er rétt að minna á þau vandamál sem tengjast svokölluðum jöklabréfum, en nú er talið að um allt að 1.200 milljarðar kr. séu bundnir í slíkum bréfum eða um 75% af þjóðarframleiðslunni. Það má gera ráð fyrir því að hluti af þessu fjármagni ávaxti sig hraðar en hagvöxturinn sem gæti leitt til enn meiri vandræða síðar. Þá má velta því fyrir sér hvert þetta fjármagn taki að leita þegar eigendur þess verða úrkula vonar um að koma því úr landi á næstu árum.

Í ljósi þeirra athugasemda í upphafi nefndarálits okkar sem ég hef hér gert grein fyrir er ekki úr vegi að tengja þær því sem snýr að afkomu ríkissjóðs. Það er ljóst að hagkerfið líður mjög fyrir afar skuldsettan ríkissjóð. Þess vegna er það mat okkar sem stöndum að þessu áliti að forgangsmál sé að ná jákvæðum heildarjöfnuði í ríkisfjármálum svo að unnt sé að lækka skuldir ríkisins. Um þetta erum við í raun öll sammála, þvert á allar pólitískar línur í þinginu.

Til að ná þessu fram eru tvær leiðir. Annaðhvort þarf greiðsluafkoma ríkisins að skila afgangi eða verja þarf eignum ríkissjóðs, m.a. arði eða söluandvirði eigna, til uppgreiðslu skulda. Við höfum í raun engar aðrar leiðir. Við höfum tekið saman upplýsingar sem birtast í nefndaráliti okkar sem sýna þá breytingu sem orðið hefur á afkomu ríkissjóðs undanfarin ár, þ.e. frá árunum 2009, 2010 og 2011. Við styðjumst í því efni við ríkisreikning, endurskoðað bókhald ríkisins.

Af því yfirliti um afkomu ríkissjóðs má sjá að tekjur umfram gjöld, samanlagður halli á þessum þremur árum af kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar er 352 milljarðar kr. Hallinn er rúmir 139 milljarðar árið 2009, 123 milljarðar 2010 og ríflega 89 milljarðar 2011. Bara hallinn á árinu 2011 samsvarar því að við séum að reka ríkissjóð á hverjum einasta degi með halla upp á 245 millj. kr. Þetta eru rúm 18% af skatttekjum ríkisins. Þetta eru alvarleg tíðindi, alvarlegar tölur. Þótt vissulega sé hallinn, heildarjöfnuðurinn, smátt og smátt að ganga niður, eru þetta þvílíkar stærðir að þær ber að taka alvarlega. Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir sama hvar í flokki við kunnum að skipa okkur. Það er tilgangslaust fyrir okkur ef við viljum takast á við þessa stöðu að velta okkur endalaust upp úr því hverju sé um að kenna, eða hverjum, hver beri ábyrgð á þessu eða hinu. Við getum tekið þá umræðu ef við viljum. Ég er afdráttarlaust þeirrar skoðunar að hún skili okkur ekki nokkrum sköpuðum hlut í leiðum til að ná því sameiginlega markmiði að þessar tölur lækki.

Ef við skoðum vaxtahlutann af þessari frammistöðu eru vaxtagjöld ríkissjóðs eins og nú er komið þriðji stærsti útgjaldamálaflokkurinn á eftir velferðarmálum og eftir heilbrigðismálum. Samkvæmt þessu frumvarpi er áætlað að vaxtagjöld á næsta ári verði 84 milljarðar kr. og vaxtatekjur þar á móti tæpur 21 milljarður. Vaxtakostnaðurinn samkvæmt þeirri töflu sem við setjum upp í áliti okkar vex ár frá ári og það má álykta með góðu móti, það þarf ekki einhvern pólitískan illvilja til heldur eru þetta bara tölur á blaði, að hann sé nánast stjórnlaus.

Við höfum tölur frá ríkisreikningi um árin 2009, 2010 og 2011. Síðan höfum við tölur eftir afgreiðslu fjáraukalaga sem eru ekki nema hálfs mánaðar gamlar, úr fjárlögum fyrir árið 2012 sem Alþingi hefur samþykkt og síðan höfum við tölurnar í því frumvarpi sem við ræðum nú. Ef við horfum á þennan þátt voru vaxtagreiðslur umfram vaxtatekjur 40 milljarðar í ríkisreikningi 2009, rúmir 38 milljarðar 2010, 46 milljarðar 2011, 55 milljarðar 2012 og 63,5 milljarðar 2013.

Breytingin á þessum árum samsvarar því að vaxtagreiðslur okkar hafi aukist á þessu tímabili, vaxtajöfnuðurinn hafi versnað á þessu tímabili um 23 milljarða króna. Vaxtagreiðslur í frumvarpinu sem hér liggja fyrir okkur nema með öðrum orðum um 230 millj. kr. á hverjum einasta degi ársins (Gripið fram í.) og vaxtagreiðslur áætlaðar á árinu 2013 samkvæmt því frumvarpi sem hér liggur fyrir eru orðnar sama tala og þær voru í ríkisreikningi 2009, 84 milljarðar.

Þetta er sú stærð sem við verðum að takast á við og í því verkefni verðum við að reyna svo sem kostur er að leggja til hliðar, á meðan við erum að reyna að móta okkur einhverja sameiginlega sýn til þess, þær pólitísku væringar sem menn vilja stunda í þessum slag. Þetta eru orðnar gríðarlegar fjárhæðir og það versta við þennan stabba, þessa stærð, er að áhrif ríkisstjórnar Íslands á hverjum tíma til að stýra þessu eru afar takmörkuð. Það þarf enga vísindamenn til að vita það að mjög mikil óvissa ríkir um vaxtastigið og litla breytingu þarf á því til að hreyfa til háar fjárhæðir í vaxtajöfnuði í ríkisreikningi.

Í þessu ljósi hljótum við að geta verið sammála um að forgangsmál í ríkisfjármálum sé að koma böndum á þetta, byrja niðurgreiðslu skulda. Þjóðarbúið hefur ekki að okkar mati sem stöndum að þessu áliti efni á því að auka áhættu ríkissjóðs frekar á þessu sviði.

Að flestra mati og meðal annars að mati Seðlabanka Íslands sem ég gat um, en hann varar við þeirri efnahagslegu stöðu sem við erum komin í, mun þessi neikvæði vaxtajöfnuður eins og hann birtist í frumvarpinu (Utanrrh: … sem við erum á leiðinni út úr.) væntanlega fara versnandi vegna hækkunar vaxta á innlendum markaði.

Hæstv. utanríkisráðherra talar um að við séum á leiðinni út úr þessu (Gripið fram í: Út úr kreppunni.) og ég vona svo sannarlega að við séum á þeirri leið, en það sem við sem stöndum að þessu minnihlutaáliti erum að vekja athygli á er að allar þær tölur sem við erum að skoða í ríkisreikningunum benda því miður ekki til þess. Það eru ýmis varnaðarmerki komin á loft og við köllum eftir því að tekið sé tillit til þeirra. Við höfum margoft lýst því yfir að við séum tilbúin til þeirrar vinnu. Ég spyr hæstv. ráðherra og bið hann raunar að hugleiða hvernig fer um hans góðu áform og stuðningsmanna hans í ríkisstjórninni ef svo fer að vextir hækka á innlendum markaði. Hvernig ætla menn að mæta því?

Hvert einasta brot úr prósenti í hækkun vaxta hreyfir stórar fjárhæðir á skuldahlið ríkissjóðs með þeim einu afleiðingum að það krefur kjörna fulltrúa um enn harkalegri samdrátt í opinberum útgjöldum en hingað til. Það er ágætt að taka þá umræðu við hæstv. ráðherra sem lýtur að skuldahlið ríkissjóðs og gerð er grein fyrir í áliti okkar. Samkvæmt ríkisreikningi í árslok 2011 námu langtímaskuldir, lífeyrisskuldbindingar og skammtímaskuldir ríkissjóðs 1.915 milljörðum kr. og þá er ég nota bene ekki að falla um áfallnar ábyrgðir, eins og menn kjósa að túlka sem svo, sem ríkissjóðurinn er í og hafa verið til umræðu núna síðustu daga og lúta að ábyrgð ríkissjóðs á Íbúðalánasjóði. Þar eru tugir milljarða á ferðinni sem menn ættu að taka tillit til þegar við erum að vega og meta þessa stærðir.

Ef við drögum frá lífeyrisskuldbindingar sem fáir virðast vilja horfast í augu við getum við sagt að heildarskuldir ríkissjóðs séu um 1.545 milljarðar eða 95% af landsframleiðslu þessa árs. Ég vek athygli á því að í þeirri tölu er ekki tekið til óleystra þátta eins og Íbúðalánasjóðs, lífeyrisskuldbindinga né heldur hinna atriðanna sem ég innti hv. formann fjárlaganefndar eftir í andsvörum þegar hann gerði grein fyrir afstöðu meiri hlutans. Það er ekki tekið tillit til þeirra boðuðu viðbóta sem kunna að koma inn á milli 2. og 3. umr. Allt til útgjalda í þeim efnum gerir ekkert annað en að auka hallareksturinn, gera heildarjöfnuðinn óhagstæðari. Það er bara ein leið til að fjármagna það og það eru auknar lántökur.

Það liggur sem sagt fyrir að skuldastaðan er ekki nægilega góð, langur vegur frá, og ekki er tekið á henni í því frumvarpi sem við erum að ræða hér heldur þvert á móti. Það er bætt við og stendur til að bæta enn frekar við. Í ríkisreikningi sem er í raun eina haldbæra gagnið sem við þingmenn höfum til að vinna með til að hafa réttar upplýsingar um raunverulega skuldastöðu er þetta ágætlega listað upp og við getum grafið í honum til þess að finna stað fullyrðingum okkar um þetta. Hér hefur hæstv. forsætisráðherra meðal annars fullyrt úr ræðustól í fyrirspurnatíma, og það er ekki lengra síðan en rétt um vika, að við værum byrjuð að greiða niður skuldir okkar.

Ég sé þess ekki stað og mér er til efs að fullyrðing hæstv. forsætisráðherra, svo mjög sem ég vildi að hún væri rétt, standist nokkra skoðun, því miður. Ef við horfum á tölur í ríkisreikningi um árin 2009, 2010 og 2011 voru í árslok 2009 skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs 1.767 milljarðar kr. Í árslok 2011 hafa þær hækkað um tæpa 150 milljarða á þeim þremur árum sem liggja hér undir og eru orðnar 1.915 milljarðar kr. Er þetta lækkun skulda? Það eru þá einhverjar aðrar reikningsæfingar en þegar manni var kennt að 2+2 væru 4. Ég held að þeir hljóti að kenna reikninginn öðruvísi en mér var kennt, þegar menn fá út úr því 3.

Hér er um að ræða hækkun á skuldum upp á þessa fjárhæð sem er gríðarlega há. Ef við greinum þetta örlítið meira sjáum við til dæmis á stærð sem kallast næsta árs afborganir langtímaskulda. Þær eru að lækka verulega á milli áranna 2009 og 2010, sem þýðir hvað? Það er verið að endursemja um skuldir og ætlunin með því er að fresta greiðslum, létta á greiðslubyrðinni en skjóta verkefninu fram í tímann. Það er ekki verið að greiða niður skuldir heldur semja um þær og lofa því að greiða þær síðar. Það léttir vissulega á stöðu augnabliksins en engu að síður hverfur þetta ekki út úr reikningum ríkissjóðs né frá kjörnum fulltrúum ríkisstjórnar hverju sinni að glíma við.

Ég ætla bara að nefna eitt dæmi sem er skuldbinding ríkissjóðs vegna yfirtöku Landsbankans á Sparisjóði Keflavíkur, 20 milljarðar kr. Hvernig fór með það? Það er ekki eins og það hafi verið staðgreitt. Það er ekki eins og það hafi átt að greiða það með afborgunum. Nei, á skuldabréfinu til fullnustu þessu er einn gjalddagi. 20 milljarðar á einum gjalddaga og hvenær? 2018. Það er langt í það. Það er ekki einu sinni á næsta kjörtímabili. Menn eru því að ýta á undan sér þeirri stöðu að taka á þessum þáttum og fresta óhjákvæmilegu uppgjöri, skjóta því á frest. Það væri í sjálfu sér allt í lagi að létta þannig á greiðslum ríkissjóðs ef ekki væri ekki bætt við nýjum skuldum á þessum frestunartíma. En eins og ég hef gert grein fyrir eru stjórnvöld að semja um það að skjóta afborgunum langtímaskuldanna fram í tímann á sama tíma og verið er að reka ríkissjóð með halla og bæta í þann skuldapakka sem síðar þarf að taka á.

Í þeim yfirlitum sem við birtum í nefndarálitum okkar kemur ágætlega fram að stjórnvöld fara ekki eftir eigin áætlunum til að styrkja umgjörð ríkisfjármála. Þær tölur sem ég hef rakið sýna einfaldlega að umtalsverð frávik eru frá upphaflegum áætlunum um jöfnuð í ríkisrekstrinum. Niðurstaða ríkisreiknings síðasta árs, 2011–2012, sýnir að hallinn verður meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það hefur líka ítrekað komið fram í umræðu um fjármál ríkisins að ástæða þess að ekki náðust þau markmið sem að var stefnt var sú að það var einfaldlega slakað á þeim og slakað á aðhaldi undir lok síðasta árs, m.a. var samþykkt að fresta markmiðum um heildarjöfnuð um eitt ár, fram til ársins 2014.

Rökin fyrir því að fresta þessu voru þau að ríkissjóður stæði betur en búist hafði verið við. Við sjáum hins vegar á ríkisreikningi fyrir árið 2011, fjáraukalögum ársins 2012 og í þeim upplýsingum sem við höfum í höndunum um fjárlög ársins 2013, að það var beinlínis röng ákvörðun að fresta þeim aðhaldsmarkmiðum eins og gert var. Hún byggði einfaldlega ekki á réttum upplýsingum. Staða ríkissjóðs er mjög erfið og það er fullt tilefni til áframhaldandi aðhalds.

Sumum kann að þykja þetta mikið svartagallsraus. Ég er ekki sammála því, þetta er einfaldlega lýsing á veruleikanum eins og hann er. Við komum okkur alveg í gegnum þetta, ég hef ekki áhyggjur af því, en til að það verði auðveldara viðfangs eða ekki eins erfitt, ef ég má orða það þannig, verða menn að láta af því að vinna með ríkisfjármálin eins og gert hefur verið á þessum þremur árum og horfast í augu við veruleikann og viðurkenna bæði fyrir sjálfum sér og almenningi hver hin raunverulega staða er.

Hvernig eru þá horfurnar, hvernig er útlitið á næsta ári og næstu árum? Til að reyna að leggja eitthvert mat á það annað en að reka fingurinn út um gluggann og athuga hvaðan hann blæs höfum við ýmsa aðila í samfélaginu sem reyna að spá í það. Við lítum hér í okkar áliti til þriggja aðila. Það er Hagstofan sem birtir þjóðhagsspár sínar og byggir í rauninni grunninn undir áætlanir í fjárlagafrumvarpinu. Það er Seðlabankinn og síðan Alþýðusamband Íslands sem þekkt er að því að hafa gefið út vandaðar hagspár. Í spám þessara aðila virðist hagvöxtur á árinu 2013 einkum vera drifinn áfram af aukinni einkaneyslu. Það er alvarlegt því að æskilegast væri ef hagvöxtur væri drifinn áfram af fjárfestingum á liðnum árum og allra best væri ef hann væri drifinn áfram af aukinni framleiðni í hagkerfinu.

Af þessum ástæðum er ekki óeðlilegt að álykta sem svo að taka beri með fyrirvara hagspám sem byggja því sem næst eingöngu á aukningu í einkaneyslu. Sá fyrirvari sem við gerum í 1. minni hluta byggir meðal annars á hagspám þessara þriggja aðila. Hagstofan spáir til dæmis um breytingar á landsframleiðslu og spáir því að vöxtur í þjóðfélaginu á árinu 2013 dragist saman um 0,2% á milli spár sem hún gerði um mitt ár, þ.e. 5. júlí, og þeirrar nýju spár sem hún birti í byrjun nóvember, 2. nóvember. Engu að síður spáir Hagstofan hagvexti upp á 2,5% á næsta ári og það er gott, mjög gott. Við verðum samt sem áður að hafa í huga að grunnurinn undir þeirri spá er óviss. Stór hluti þeirrar spár um aukinn hagvöxt upp á 2,5% byggir á vexti í fjárfestingum upp á 4,3% á árinu 2013. Það er vissulega vöxtur en það er vöxtur af litlu. Og af því að þetta er svona lítil stærð, lítill vöxtur, verður óvissan um hana sem getið er um í hagspá Hagstofunnar þeim mun alvarlegri vegna þess að ef eitthvað fer úr skorðum er þetta svo fljótt að dragast saman. Það munaði minna um það ef við værum með miklar stærðir undir, þá yrðum við ekki fyrir eins miklum skakkaföllum.

Hverjir eru fyrirvararnir í hagspá Hagstofunnar? Hún gerir vissulega ráð fyrir frekari stóriðjuframkvæmdum á árunum 2013 og 2014, sem við höfum að vísu séð mjög lengi inni í hagspám án þess að þær hafi í raun gerst. Hún gerir ráð fyrir fjölmörgum óvissuþáttum í spánni og þeir neikvæðu eru að hennar mati að stóriðjuframkvæmdir verði minni á árinu 2013 og síðar, skuldavandi heimila og fyrirtækja haldi aftur af eftirspurn á komandi missirum og það hægist á þeim bata sem menn hafi séð á vinnumarkaði.

Seðlabankinn hefur birt tvær spár frá miðju ári. Hann spáir vexti, ekki samdrætti, í landsframleiðslunni upp á um 0,7%. Hagvaxtarspá hans er á svipuðu róli, hann er með 2,9% þegar Hagstofan er með 2,5%. En sömuleiðis er í Seðlabankanum gert ráð fyrir því að vöxtur einkaneyslu haldi kröftugur áfram. Fyrirvararnir eru versnandi horfur á alþjóðamörkuðum sem við hljótum að taka alvarlega. Sömuleiðis er Seðlabankinn með fyrirvara um fjárfestingu í orkufrekum iðnaði eða orkuverum, og svo að síðustu segir Seðlabankinn að horfur séu á hægari vexti innlendrar eftirspurnar á næsta ári og þar muni mest um hægari vöxt fjárfestingar.

Loks ætla ég að nefna hagspá Alþýðusambands Íslands. Þar er þetta orðað svo, ef ég vitna í hana orðrétt, með leyfi forseta:

„Efnahagsbatinn er brothættur og það eru blikur á lofti. Umheimurinn glímir við þrálátan efnahagsvanda sem ekki sér fyrir endann á. Þróist efnahagsmál erlendis á verri veg en spáð hefur verið mun það bitna enn frekar á okkur. Þá eru stór fjárfestingaráform, svo sem bygging álvers í Helguvík, ekki í hendi þó að líkur á þeim hafi aukist og því reiknað með þeim í spánni. Samkvæmt frávikadæmum sem birt eru með hagspánni þá mun draga verulega úr hagvexti ef ekki verður ráðist í byggingu álversins og verði frekari tafir á byggingu nýs spítala hefur það einnig áhrif á spána. Uppsafnaður hagvöxtur áranna 2013–2015 mun minnka um 2,7% og heildarverðmætasköpun okkar verða um 100 milljörðum króna minni fram til ársins 2015 gangi fjárfestingaráformin ekki eftir.“

Hagvaxtarspá ASÍ er á svipuðu róli og Hagstofunnar. Þeir hjá ASÍ fara hins vegar í svokallaða frávikaspá að því gefnu að „stóru fjárfestingaráformin“ gangi ekki eftir og þá lítur þetta verr út. Ástæða þess að við drögum þetta fram í okkar áliti er fyrst og fremst sú að við erum að vara við teiknum á lofti sem, ef þau ganga eftir, munu valda því að við lendum í enn meiri erfiðleikum gagnvart þeim tveimur stærðum sem ég ræddi um áðan. Við erum að hvetja stjórnarliða til að standa vörð um þau áform sem þessir þrír spáaðilar leggja til grundvallar sínum hagspám og beita sér fyrir því að þau gangi eftir. Það er þörf á því að þau rætist. Ef ekki, ber stjórnarliðum skylda til þess að mæta því með ábyrgum, skynsamlegum hætti og það verður ekki öðruvísi gert en að fara inn í fjárlagafrumvarpið sem þá verður í uppnámi.

Hvernig byggir þá fjárlagafrumvarpið undir þessi áform, eigum við að skoða það örlítið? Hvernig leggur stjórnarmeirihlutinn þau lóð á vogarskálarnar sem þarf til að fullnusta að þessar spár gangi eftir með þeim jákvæða hætti sem við viljum öll sjá? Því miður er í fjárlagafrumvarpinu ekki að finna nauðsynlegar fjárveitingar til að styðja við uppbyggingu atvinnulífsins í landinu, og þær hagvaxtarspár sem ég var að fara yfir. Ég ætla að nefna tvö dæmi því til staðfestingar.

Það liggur fyrir í Norðurþingi þar sem áform eru uppi um langþráða fjárfestingu í iðnaði að fulltrúar þess sveitarfélags geta ekki og hafa engar heimildir til að skrifa undir samning þar að lútandi við áhugasama aðila. Hver er ástæðan fyrir því að þeir treysta sér ekki til að skrifa undir þessa samninga? Jú, það liggur fyrir að í fjárlögum eru ekki tryggðir fjármunir til nauðsynlegrar uppbyggingar innviða. (Gripið fram í: Tóm vitleysa.) Það liggur fyrir í fjárlögum að það eru ekki fjárveitingar til að byggja upp þá innviði sem nauðsynlegir eru svo að sveitarstjórnarmenn í Norðurþingi treysti sé til … (Gripið fram í: Hvað heldurðu að Vaðlaheiðargöng séu?) (Forseti hringir.) Erum við hér í einhverjum samræðum, forseti?

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að gefa ræðumanni tækifæri til að flytja mál sitt. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur orðið.)

Forseti. Ég hef ágætan frið fyrir hv. þingmönnum í salnum en hæstv. ráðherra virðist pirraður á því að geta ekki staðið við þau loforð (Gripið fram í.) sem hafa verið gefin sveitarstjórnarmönnum á Norðausturlandi, sérstaklega á Húsavík, ár eftir ár. (Gripið fram í: Áratugi.) Það liggur fyrir að í fjárlagafrumvarpinu, eins og það hljóðar, vantar 2,6 milljarða kr. í fjárfestingu í vegagerð og í höfn til að sveitarstjórnarmenn í Norðurþingi, sem er ekki best fjárhagslega stæða sveitarfélag landsins, treysti sér til þess að gera samninga við þá aðila sem þarna vilja sækja inn og byggja upp. (Gripið fram í: Hvað eru Vaðlaheiðargöng?) Það liggur fyrir. Vaðlaheiðargöng ein og sér eru hið besta mál. — Forseti, mætti ég fá frið fyrir hæstv. ráðherra? Hann hefur alveg tilefni til að koma í andsvar ef hann vill. (Forseti hringir.) (Utanrrh.: Ég bið þingmanninn afsökunar.) Sú afsökun er tekin til greina.

(Forseti (ÁÞS): Forseti ítrekar að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur orðið.)

Afsökunarbeiðni hæstv. ráðherra er tekin til greina. Vissulega er sárt fyrir hann að þurfa að sitja undir þessum sannleiksorðum, en ég hvet hæstv. ráðherra, í stað þess að sitja hér á ráðherrabekkjum og reyna að halda fram rangfærslum, að bregða undir sig betri fætinum og skjótast norður til Húsavíkur, heimsækja menn þar og fara aðeins yfir málið við þá í stað þess að bítast hér í einhverjum rembingi við þingmann sem er að reyna að flytja honum þá staðreynd að hæstv. ráðherra með stjórnarliðum sínum stendur sig ekki í fjárlagagerðinni. Þetta er mjög einfalt mál.

Hitt dæmið sem ég vænti að menn úr stjórnarherbúðunum hafi skýringar á lýtur að uppbyggingu og orkuöflun á Suðurnesjum. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherrar og þingmenn stjórnarmeirihlutans ætla að byggja jarðgöng þangað en ég fullyrði að þau bjarga engu fyrir Suðurnesin fremur en jarðgöng ein og sér fyrir uppbyggingu á Bakka á Húsavík. Það þarf ýmislegt fleira til.

Ef við skoðum það sem snýr að tekjuhluta fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir því að tekjur aukist á milli 1. og 2. umr. frumvarpsins um 9,3 milljarða kr. Þær breytingartillögur sem lúta beint að tekjunum snúa fyrst og fremst að því að gert er ráð fyrir aukinni einkaneyslu og hún skili ríkissjóði tekjuskatti af þeim sparnaði sem einstaklingar taka út af reikningum sínum, bæði séreignarsparnaði og innlánsreikningum. Til framtíðar litið er það áhyggjuefni að svo mikið dragi úr sparnaði sem ætti að standa undir kraftmiklum fjárfestingum í atvinnulífinu.

Gert er ráð fyrir því að þær úttektir á séreignarsparnaði sem væntanlega verða framlengdar með lögum núna fyrir áramótin … (MÁ: Það er lygi.) sem verða væntanlega framlengdar með lögum fyrir áramótin … (MÁ: Ekki rétt.) (Forseti hringir.) Forseti.

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður um frið í þingsal. (Gripið fram í: Út með þessa kalla.) Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur orðið.)

Forseti. Ég þakka örugga fundarstjórn og skal játa að ég sakna þess ekkert að sjá hv. þm. Mörð Árnason og hæstv. utanríkisráðherra ganga úr salnum. Það verður einfaldlega betri friður um þann boðskap sem ég flyt. Ég vil líka nefna annað varðandi þá tekjuáætlun sem fór greinilega eitthvað út undir þessa herramenn, hv. þingmann og hæstv. ráðherra. Þeir eru kannski að hlaupa til þess að fara að reyna að semja við nýju stjórnarandstöðuþingmennina, hv. þingmenn Róbert Marshall og Guðmund Steingrímsson, um skattinn á ferðaþjónustuna. Það háttar svo einkennilega til og er raunar með eindæmum að bandormurinn um breytingar á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins er ekki kominn fram. Hvernig skyldi standa á því? Skyldi áformum um hann hafa verið frestað einfaldlega vegna þess að þegar átti að fara að birta hann og leggja hann fram lá fyrir að ekki væri þingmeirihluti fyrir fjárlagafrumvarpinu? Er það tilviljun ein að í vikunni lýsti hv. þm. Róbert Marshall því yfir að hann mundi ekki fallast á skattinn á ferðaþjónustu eins og hann var þar útfærður? Er það tilviljun að frumvarp um þennan mikilvæga þátt fjárlagafrumvarpsins er ekki komið fram á þinginu þegar við ræðum við 2. umr. fjárlög íslenska ríkisins á árinu 2013? Þetta er ekki boðlegt.

Eitt atriði enn sem ég vil nefna lýtur að sölu eigna og arðgreiðslna. Nú er svo komið að stjórnarmeirihlutinn treystir sér ekki til að hækka skatta með sama beina hættinum og áður hefur verið gert, rústa tiltölulega einföldu, skilvirku skattkerfi og búa til mjög flókið, þeir treysta sér ekki lengra í þá átt. Hvað er þá til bragðs að taka? Jú, þeir segja: Förum inn í fyrirtæki ríkissjóðs, sækjum þangað fé. Er þetta ekki fyrirmynd sem menn lærðu hér á árum áður? Nú á að fara að beita þessu gagnvart ríkisfyrirtækjum; Landsbanka Íslands, Seðlabanka Íslands, Landsvirkjun, Rarik, Orkubú Vestfjarða og ÁTVR. Hvað er þangað að sækja? kann einhver að spyrja. Jú, á þessi fyrirtæki er gerð krafa um að þau greiði arð í ríkissjóð.

Áður en ég kem að orkufyrirtækjunum vil ég fyrst nefna að Landsbanka Íslands er ætlað að greiða 9,6 milljarða í arð. Þetta er tala sem datt inn milli umræðna, kom bara sisvona fljúgandi utan úr loftinu. Gott og vel, látum það liggja á milli hluta. Seðlabankanum er ætlað að greiða 2,6 milljarða. Það má alveg velta því fyrir sér hvaðan sú fjárhæð á að koma. En skattlagning á Landsvirkjun upp á 2,5 milljarða, — krafa um arðgreiðslu er þetta kallað — skattlagning á Rarik upp á 310 milljónir, Orkubú Vestfjarða upp á 60 milljónir og ÁTVR upp á 1,2 milljarða er ekkert annað en bein skattlagning á almenning í nýju formi.

Hvernig dettur mönnum í hug að fara þessa leið núna, t.d. varðandi raforkuna? Hvert halda menn að arðkrafa á Landsvirkjun upp á 2,5 milljarða fari? Eða arðkrafa á Rarik upp á 310 milljónir? Hvert haldið þið að krafa um 60 milljóna hækkun á Orkubú Vestfjarða fari? Og nýbirtar upplýsingar um hækkun á flutningsgjaldskrá Landsnets, hvert halda menn að þetta fari? Beint út í raforkureikning, hækkun taxta hjá almenningi í landinu, beintengt við vísitölu neysluverðs, beintengt við framfærslukostnað heimilanna í landinu.

Hvers lags framkoma er þetta eiginlega? Er ekki nóg samt? Geta menn ekki undir neinum kringumstæðum unnið öðruvísi að þessu? Það er raunar grátlegt að sjá að í viðleitni sinni til að halda sér á floti og komast til þess verks að sá út að vori skuli menn fara þessa leið.

Við sumt horfast menn í augu. Dregið er úr áformum um eignasölu á árinu 2013, þau eru lækkuð um 4 milljarða. Það er væntanlega gert í því ljósi að áform upp á 7,6 milljarða eignasölu í fjárlögum þessa árs gengu ekki eftir og voru bara draumsýn. Lítum síðan á útgjaldahlið frumvarpsins. Án þess að leggja dóm á þau verkefni sem þar er verið að veita fjármuni til, þetta eru allt eða flestallt hin mætustu verkefni, þá fullyrði ég að þau eru öll, velflest skal ég segja til að vera svona þokkalega mjúkur á því, þess eðlis að engin þjóðarvá er yfirvofandi ef ekki verður af þeim. Þetta snýst ekki um það. Þær fjárveitingar sem hér er dreift á tún opinbera hins vegar að stjórnarmeirihlutinn horfist ekki í augu við útgjaldaþáttinn eins og hann raunverulega er og allra síst þegar við gætum þess að fram undan eru, væntanlega eftir næstu helgi, tillögur upp á tugi milljarða kr. til útgjaldaauka fyrir ríkissjóð. Þetta er gjörsamlega farið úr böndunum hjá hæstv. ríkisstjórn.

Til viðbótar því sem menn ekki sjá má svo nefna þann dulda halla sem lýtur að því að ríkisstjórnir áttu inni afgangsfjárheimildir þegar hrunið varð. Þær hafa gengið á þær undanfarin ár en nú er svo komið að þessi pottur er þrotinn. Þó ekki væri nema fyrir þetta er alveg augljóst að vandamálið er af þeirri stærðargráðu að nauðsynlegt er að stjórnvöld móti stefnu um opinbera þjónustu til næstu ára svo að unnt sé að ná þeim markmiðum sem sett eru í fjárlögum.

Ég ætla að lokum, forseti, að ræða hér örlítið um hina svokölluðu fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Í nefndaráliti okkar köllum við það sem ríkisstjórnin nefnir fjárfestingaráætlun, skóflustungur kosningaloforða. (HöskÞ: Vel mælt.) — Ég þakka hv. þingmanni hans frammíkall. Það liggur fyrir að þessi fjárfestingaráætlun upp á 5,6 milljarða á árinu 2013 er í raun samsafn af ákveðnum nýmælum þar sem í mörgum tilfellum eru rekstrarstyrkir nú flokkaðir sem fjárfesting. Það er augljóst að slagorð einkenna á margan hátt þessa áætlun. Ég vil minna á, forseti, að slagorð eins og „skapandi greinar“, „netríkið Ísland“, „grænt hagkerfi“, skila ekki arðsemi fyrir fram. (SER: Betra en einkavæðing.) Velflest þessarar verkefna eru ekki þannig úr garði gerð að þau séu nauðsynleg til uppbyggingar á þeim varanlega hagvexti sem íslenskt þjóðfélag og ríkissjóður þarf svo mjög á að halda. Það liggja engar trúverðugar áætlanir að baki flestra þessara verkefna sem sýna hagkvæmni þeirra eða sannfæra skattgreiðendur um að þau gangi upp. Því er full innstæða fyrir því að segja að í þessari áætlun séu teknar skóflustungur kosningaloforða sem kjörnum fulltrúum eftir næstu kosningar í vor er ætlað að efna. Það er á engan hátt forsvaranlegt að byggja slíkar skýjaborgir á kostnað skattgreiðenda. Áætlanir þurfa að liggja fyrir um rekstur að loknum byggingartíma og því miður hafa engar áætlanir verið sýndar um þann framtíðarkostnað sem af flestum þessara verkefna leiðir.

Fyrir liggja breytingar á útfærslu fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar við 2. umr. fjárlaga og þar er að finna ýmsar tillögur eins og formaður fjárlaganefndar gat um. Ein er til dæmis um hækkun IPA-styrkja tekjumegin um 94 milljónir. Önnur sem þarf að skoða frekar er um hækkun gjalds á lánastofnanir til embættis umboðsmanns skuldara um 417 millj. kr. Ég vek athygli á því að embætti umboðsmanns skuldara er fjármagnað með gjaldtöku af fjármálastofnunum. Það er rétt að benda á þann þátt ríkisins í þessu einkennilega ferli sem felst í því að skattgreiðendur greiða gjöld til ríkissjóðs, leggja fyrir lögskipaðan sparnað í lífeyrissjóði og taka sumir hverjir lán hjá Íbúðalánasjóði. Ríkið leggur gjald á Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði til að fjármagna embætti umboðsmanns skuldara en þarf jafnframt að leggja Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðunum til fjármuni frá skattgreiðendum til að fjármagna gjaldið. Hvað lærdóm má draga af þessu? Í einu orði: Þetta er tóm hringavitleysa, þetta gengur allt í hring. Því miður er margt þessarar gerðar í frumvarpinu.

Það er full ástæða til að ítreka þá skoðun mína að aga og festu skorti í ríkisfjármálum og því hefur fjarað undan markmiði stjórnvalda í ríkisfjármálum um hallalausan ríkissjóð árið 2014. Í því frumvarpi til fjárlaga sem hér liggur fyrir og breytingartillögum sem kynntar hafa verið er ljóst að kosningar eru fram undan og flestum áformum ríkisstjórnar um ábyrg fjárlög og hallaminni ríkissjóð er varpað fyrir róða. Það er ljóst að viðvarandi halli verður áfram á ríkissjóði, auknar skuldir og hærri vaxtagreiðslur munu skaða innviði samfélagsins, rýra almannaþjónustu, draga úr mætti atvinnulífsins til nýsköpunar og skerða kjör almennings. Það eru eftirmæli þessarar ríkisstjórnar.

Fjárfestingaráætlun fyrir Ísland er ætlað að styðja við hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífi og hún byggir á að jöfnuði verði náð í ríkisfjármálum árið 2014. Flestum er ljóst að það mun ekki ganga eftir, því miður. Í áætluninni eru teknar skóflustungur kosningaloforða sem nýju Alþingi er ætlað að fjármagna að loknum kosningum í vor. Það er lítil reisn yfir slíkum verkum. Stjórnvöld verða að standa við gerða samninga, þau eiga að stuðla að aukinni fjárfestingu og fjölgun starfa en eins og ég hef rakið hér, forseti, er mikill misbrestur á því þó svo að það pirri einstaka þingmenn, stjórnarliða og hæstv. ráðherra. Þetta er forsenda fyrir því að unnt sé að vinna þjóðina út úr þeim ógöngum sem núverandi stjórnarstefna leiðir til. Það er brýn nauðsyn á að breyta stefnu við efnahagsstjórn landsins. Setja á í forgang að stækka skattstofna til að auka tekjur í stað þess að rýra þá stöðugt með þyngri skattbyrði. Það þarf að endurskipuleggja ríkissjóð með það að markmiði að veita meiri þjónustu fyrir minna fé og greiða niður skuldir til að draga úr vaxtagjöldum.