141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt. Við verðum að setja reglur um vinnubrögð og því miður hefur maður það á tilfinningunni að sá leikur sé leikinn að kynna fjárlaganefnd mikilvægar ákvarðanir með mjög stuttum tíma. Jafnvel án þess að meðlimir í fjárlaganefnd hafi séð gögnin áður og svo er málið tekið út skömmu seinna.

Nú liggur það fyrir að við erum að fara að fjalla um risastór mál fyrir 3. umr., en ég veit ekki betur en sú umræða eigi að fara fram næstkomandi miðvikudag. Ég tek heils hugar undir að það verði mótaðar reglur um vinnubrögð og ég vil bæta því við að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að almenna reglan varðandi fundi nefnda sé sú að þeir séu í beinni útsendingu (Forseti hringir.) þannig að almenningur geti fengið að fylgjast með. Þannig er það viðhaft í skoska þinginu og víðar, (Forseti hringir.) til að almenningur geti áttað sig á því hvar hin raunverulega vinna fer fram á Alþingi.