141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég var að undirbúa ræðu mína sem ég ætla að flytja síðar í dag rak ég augun í akkúrat þær áherslur sem hv. þingmaður nefndi sem líklega þær veigamestu. Ég rak augun í þær í nefndaráliti hv. þingmanns og félaga hans í fjárlaganefnd og það er varðandi vaxtakostnað ríkissjóðs og tekjur ríkissjóðs.

Samkvæmt upplýsingum í nefndarálitinu er ljóst að vaxtagjöldin eru í rauninni að aukast og tekjurnar, ef ég skil það rétt, að dragast saman. Ég velti fyrir mér hvaða lausnir við höfum á þeim mikla vanda sem augljóslega blasir við. Það er ekki nóg með að staðan virðist vera slæm miðað við upplýsingarnar sem þarna koma fram, og er það að sjálfsögðu, heldur sýnist manni líka að verið sé að velta töluvert miklum vanda á undan sér. Það er ekki verið að taka á stórum vandamálum sem allir sjá og allir hafa vitað af í mjög langan tíma. Ég nefni nú bara lífeyrisskuldbindingar, vöntun á fé inn í ákveðna sjóði og annað, því er í rauninni ýtt á undan sér.

Því hljótum við að spyrja: Hvenær mun það skella á okkur af fullum þunga, öll þau vandamál sem er núna frestað eða reynt að ýta inn í framtíðina? Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann sér fyrir sér að við leysum það. Sú leið sem hefur verið farin fram að þessu er hækkun skatta eða niðurskurður á útgjöldum. Ég hygg að í sumum tilfellum sé ekki hægt að skera mikið meira niður, alla vega í einhverjum málaflokkum. Eflaust er hægt að hagræða einhvers staðar eða stöðva í það minnsta útþenslu einstakra stofnana og málaflokka. Ég hygg að það verði erfitt að hækka skatta frekar án þess að það fari að virka miklu meira í öfuga átt en það gerir í dag. Mig langar að spyrja þingmanninn út í það fyrst og fremst.