141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir skelegga og góða ræðu þar sem farið er ágætlega yfir þá mismunun sem augljóslega er að finna hér af hálfu stjórnarflokkanna þegar kemur að ýmsum málefnum. Í rauninni er þó aðallega fjallað um eitt mál sem er þjóðgarðurinn á Snæfellsnesi. Við þekkjum það svo sem frá fyrri umræðum um fjárlagafrumvörp að það hefur gengið erfiðlega að opna augu ríkisstjórnarflokkanna fyrir mikilvægi þess að byggja upp þarna líkt og annars staðar. Það er farið fögrum orðum um að þjóðgarðar séu svo mikilvægir, vitanlega til að vernda fallega náttúru, draga að ferðamenn o.s.frv. Það virðist vera sérstakt áhugamál, eins og fram kom hjá hv. þingmanni, að einbeita sér að einhverjum tveimur stöðum á landinu.

Ég velti fyrir mér hvort það geti verið að það sé meðvitað. Hvort stjórnarflokkarnir líti svo á að eðlilegt sé að halda áfram uppbyggingunni á sérstökum stöðum sem eru þeim hvað hugleiknastir. Við sjáum að það eru ýmis mál, frumvörp, sem hafa verið lögð fram er lúta að friðun nánast alls Íslands, frá þjóðgarðinum á Þingvöllum austur að Vatnajökulsþjóðgarði. Það virðist vera vilji þeirra stjórnarflokkanna að hreyfa hvorki við grjóti né þúfu.

Ég velti því fyrir mér í framhaldinu hvort þingmenn stjórnarflokka til dæmis í Norðvesturkjördæmi munu styðja fjárlagafrumvarp sem er svo óréttlátt, eins og hv. þingmaður benti hér réttilega á. Munu þeir þingmenn geta stutt að tveir af þessum þremur þjóðgörðum fái sérstaka meðhöndlun meðan einn þjóðgarður í þeirra kjördæmi verður skilinn eftir? Það er ekki kjördæmapot að standa og verja slíkt. Það má velta fyrir sér hvort það sé eitthvert kjördæmapot á bak við þær fjárveitingar sem (Forseti hringir.) liggja hér fyrir.