141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:37]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi einmitt hitt naglann á höfuðið hvað varðar hinar erlendu fjárfestingar. Maður les og flettir upp gömlum og nýjum fréttum um fjárfesta, til að mynda um forsvarsmann eins af gagnaverunum sem var að hugsa um að koma sér upp bækistöðvum á Íslandi. Hann fór síðan til Svíþjóðar og sagði að eitt og annað hefði spilað inn í, ekki síst hversu andsnúin ríkisstjórnin var eða óljós í öllum sínum viðbrögðum, hvernig hún tók á móti hugmyndum um fjárfestingar. Fjárfestar virtust oft á tíðum vera gerðir afturreka með sínar fjárfestingar vegna afturvirkni laga og afturvirkni ákvarðana þannig að ekkert gegnsæi var í ákvörðunum. Ég held að hv. þingmaður hafi komist réttilega að orði, það þarf að auka trúverðugleika fjárfestingarstefnu okkar Íslendingar þegar kemur að samskiptum við útlendinga og því að reyna að laða að erlent fjármagn. Það skiptir öllu máli. Þótt við séum landfræðilegt eyland erum við ekki eyland í hinum alþjóðlegu viðskiptum. Menn líta á umhverfið hverju sinni, hvernig það er. Ef það er þannig að menn hringla með þetta eftir því hvernig andinn er á stjórnarheimilinu hverju sinni mun okkur ekkert miða áfram með fjárfestingar.

Ég vil hins vegar taka undir með hv. þingmanni varðandi lögregluna og löggæsluna. Hv. þingmaður var einmitt forustumaður þingsályktunartillögu um löggæsluáætlun fyrir Ísland sem við samþykktum og beittum okkur fyrir að fá í gegn, m.a. í allsherjar- og menntamálanefnd. Sú áætlun á að vera í fullum gangi núna og það á að skila á næsta ári. Það er hvorki gert ráð fyrir því að áætlunin kosti eitthvað eða fyrir því hvernig við getum byggt upp lögregluna og hlúð að henni. Það er hvergi komið inn á það í fjárlagafrumvarpinu sem við erum að tala um. Mér finnst vert að vekja athygli á því.